Mýrin tók Börnin í Eddunni 5:1

Prúðbúnir hátíðargestir klöppuðu verðlaunahöfunum mismikið lof í lófa eins og við var að búast. Þó vorinu í íslenskri kvikmyndagerð sé lokið og komið fram yfir hvítasunnu verður að segjast að „fáir voru tilkallaðir og enn færri útvaldir“. Ekki eru margar kvikmyndir búnar til hér á landi á hverju ári en þó slæðast oftar en áður athyglisverðar myndir með. Ég er m.a.s. búinn að sjá tvær í haust sem báðar voru mjög góðar, Mýrina og Börn.

Persónulega hefði ég viljað sjá myndina Börn sem sigurvegara Edduhátíðarinnar. En af hverju? Í Dagblaðinu hafði einhver skrifað að líklega fengi Mýrin þessi verðlaun þar sem svo margir væru búnir að sjá hana! Þetta fannst mér sérkennileg röksemdarfærsla. MacDonalds væri þá líklega besta veitingahús í heimi og rigningin besta veðrið á Íslandi. Markaðslögmálið er ágætis afl í nútímasamfélaginu en það er ekki mælikvarði á gæði heldur vinsældir. Það hefði verið nær að reikna út hvaða mynd hefði fengið bestu aðsókn og veita síðan einhver vinsældaverðlaun. Edduverðlaunin eru auðvitað einhver vasaútgafa af óskarsverðlaununum og reyna stundum að líkjast þeim hræðilega mikið þó íslenskur töffaraskapur sé sjaldan langt undan. Ég óttast að kannski hafi markaðs- og vinsældasjónarmið ráðið för við verðlaunaafhendingu en ekki listræn gildi. En kannski er þetta bara bölvuð vitleysa í mér; þetta er sennilega bara spurning um smekk. Myndin Börn skildi einfaldlega meira eftir sig hjá mér en Mýrin og hlýtur því hjá mér fyrsta sætið.

Símakosningar eru eitt það hræðilegasta sem ég veit. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er sorglegasta dæmið um hvernig kosningar á þennan hátt geta eyðilagt gæði. Þau lög sem ná lengst í þeirri keppni koma frá löndum sem eiga mikið af fólki búsettu erlendis sem þá greiðir atkvæði (með greiddu símskeyti) fyrir sinn heimahaga. Við komumst því sennilega ALDREI upp úr undankeppninni sökum mannfæðar erlendis.

Balthasar Kormákur sagði í einni af þakkarræðum sínum á Edduverðlunahátíðnni í kvöld að hann væri þakklátastur þjóðinni fyrir að hafa farið á myndina sína. Þakklátari en fyrir að fá verðlaunin. Þetta fannst mér vel mælt hjá Balthasar. Mýrin var mynd sem þjóðin beið eftir. Uppáhaldsrithöfundur þjóðarinnar var loksins kominn á hvíta tjaldið. Eftirvæntingin var mikil. Niðurstaðan var framúrskarandi úrvinnsla og frábær afþreying. Þessi vinsæla mynd er að slá öll aðsóknarmet.

En er hún þar með sjálfkrafa sú besta?

2 athugasemdir við “Mýrin tók Börnin í Eddunni 5:1

  1. Ja…þú segir nokkuð…

  2. humm…. þetta kommentakerfi er hriplekkt. Sum sé aftur:
    Það að flestir koma á Mýrina hefur náttúrlega með markaðssetningu að gera og umgjörð!!!

Færðu inn athugasemd