Af karnívalgrímum og öðrum grímum!

Örlítið af mér…

Enn á ný hefur vinnan dregið mig af stað út í heim. Núna er ég staddur í Feneyjum að syngja risann Fáfni sem í þetta sinn stjórnar gröfu og reynir að gera útaf við Sigurð Fáfnisbana með skóflunni. En Sigurður heitir ekki Fáfnisbani fyrir ekki neitt. Hann rekur spjót í hjarta Fáfnis svo að vinnugallinn atast allur út í blóði í bland við drullu og smurolíu. Ef Fáfnir hefði náð að drepa Sigurð, héti hann sennilega Fáfnir Sigurðarbani og Hringur Wagners væri bara 6 klukkutíma langur en ekki 14. Þetta er samt allt hið besta mál. Meðsöngvararnir eru frábærir og mér sýnist uppfærslan hin ágætasta.

Feneyjar eru eins og allir vita sundurskornar af síkjum. Oft er því fljótasti ferðamáttinn á milli staða í borginni sjóleiðin þar sem ekki eru neinir bílar og hjól eru ekki leyfileg. Það er líka oft stutt að ganga en það er þrennt sem setur þar strik í reikninginn. Í fyrsta lagi eru allar götur fullar af ferðamönnum. Þeir eru flestir hverjir ekkert að flýta sér og standa gjarnan saman í hóp. Þetta hægir á allri gangandi umferð en það er ekki við ferðamennina að sakast. Þeir eru hingað komnir til að skoða en ekki taka þátt í einhverjum ratleik. Í öðru lagi er mjög auðvelt að villast hérna. Ég var hálfan klukkutíma að finna aftur skammtímaleiguíbúðina mína fyrsta daginn minn. Ég mundi bara að það var pizzería í nágrenninu ásamt búð sem selur karnívalgrímur og svo var þetta líka stutt frá almenningssalerni sem greiða þarf fyrir notkun. Þetta hafðist þó fyrir rest; annars sæti ég ekki hér að skrifa þetta annars tilgangslausa blogg. Í þriðja lagi eru „göturnar“ eða göngustígarnir mjög þröngir. Sá þrengsti er þannig að ekki gæti ég mætt sjálfum mér á honum; annar okkar hefði þurft að bakka til baka og hleypa hinum fyrst í gegn.

En það eru ekki bara karnívalgrímur sem gleðja mig þessa dagana. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera tilnefndur til Grímunnar – íslensku leiklistarverðlaunanna 2007 sem söngvari ársins fyrir hlutverk mitt í Brottnáminu í óperunni s.l. haust. Þetta er mikill heiður fyrir mig og um leið heiður fyrir þessa uppfærslu sem svo sannarlega á allt gott skilið. Verðlaunin verða síðan afhent 15. júni í íslensku óperunni og verður herlegheitunum sjónvarpað beint. Ég verð fjarri góðu gamni; sennilega villtur og fótalúinn í Feneyjum að troðast í gegnum túristahjarðir eða fastur í húsasundi.

8 athugasemdir við “Af karnívalgrímum og öðrum grímum!

 1. Innilega til hamingju með tilnefninguna!

 2. Til hamingju með tilnefninguna. Þú varst nú líka glæsilegur.

 3. sæll skan , til hamingju með verðlaunin – góða skemmtun í feneyjum ( ekki til betra nafn á neinu tungumáli ) – og þar sem okkur hinum finnst svo gaman að lesa bloggið þitt er það ekki tilgangslaust – a.m.k. ekki fyrir okkur hin – og ég geng eiginlega út frá því að þú hafir af því eitthvað gagn og gaman – skelltu þér síðan út á lido – það er yndislega rólegt þar –
  bestu frá kuala lumpur – við fljúgum eftir viku til vínar –
  gunný

 4. Hæ Bjarni minn, og til hamingju sömuleiðis með Grímutilnefninguna!! Það kom mér hreint ekki á óvart að sjá nafn þitt á listanum, þó annað hafi komið mér skemmtilega á óvart…..
  Þú varst algerlega óborganlegur í þessari sýningu!!
  gangi þér vel í ratleiknum!
  kveðja,
  Hulda Björk.

 5. Innilega til hamingju …

  kv. Elma úr kvennabúrinu

 6. Hjartanlegar hamingjuóskir Bjarni minn. Reyndu nú að ganga túristana ekki niður. Get hins vegar vel skilið hvað þeir geta farið í taugarnar á þér. Fátt sem ég læt pirra mig meira en túristar sem ekkert komast úr sporunum jafnvel þar sem ég er túristi sjálfur:-)
  Habbðu það sem best. kv. Óli Sveins

 7. Þorkell Logi

  Innilega til hamingju með tilnefninguna Bjarni minn, þú átt þetta virkilega skilið, mjög gaman að fá svona viðurkenningu á starfi sínu :o)
  Leiðinlegt þetta með þrengslin í Feneyjum, við gætum þá ekki fengið okkur ís í boxi og labbað saman um göngustígana heldur þyrftum að ganga í röð, það yrði kyndug sjón.

 8. Ég mæti þér gjarnan í Feneyjum…í hvaða þröngu götu sem er!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s