Flokkaskipt greinasafn: Fréttir af mér

Bjarni Brando í Brúðkaupi Fígarós!

Sex konur klæddu mig í og úr í heila tvo klukkutíma eftir hádegið í gær milli þess sem þær störðu á mig, ýmist standandi eða á hnjánum. Búningamátun er órjúfanlegur hluti af undirbúiningi fyrir sýningu og sé um nýja uppfærslu að ræða (eins og núna) þarf að taka margar mikilvægar ákvarðanir.

Á brjóstvasinn á jakkanum að vera alvöru eða bara þykistunni? Ein eða tvær tölur á jakkanum? Klof að aftan? Axlapúðar? Oftar en ekki er það síðan svo að leikstjórinn ákveður að maður sé kominn úr jakkanum áður en maður stígur inn á sviðið. En hvað um það, þetta er hluti af þessu ferli og sjálfsagt að taka það alvarlega. Mér finnst þetta svo sem ekkert leiðinlegt en það reynir samt á að horfa á sjálfan sig í fullri stærð, tvo klukkutíma í spegli. Ég mátaði tvenn jakkaföt í dag; önnur gráglansandi en hinn „beis“ hvít. Bæði með vesti og svo fæ ég hvíta skirtu og flott bindi við bæði fötin.

Venjulegast er lögfræðidoktorinn Bartolo bitur eldri maður, afkáralegur og skollóttur eða með barokkhárkollu. Þannig er það ekki í þetta skiptið. Uppfærslan gerist í nútímanum og útlitslega fyrirmyndin að perónu Bartolo er Marlon Brando. Ég fæ meira að segja að reykja vindla í sýningunni, klípa í kvenfólk, daðra og vera dónalegur. Danski leikstjórinn lagði höndina á öxlina á mér í gær og sagði: „Bjarni, reyndu að setja þig í spor Bartolo eins og hann er í uppfærslunni minni. Þar er hann einn af þessum eldri mönnum sem hefur gaman að sér töluvert yngri konum!

Ég verð vist að reyna að setja mig í hans spor.

Tuðandi þakklátur!

Stoltur, montinn, þakklátur, glaður, undrandi, snortinn, hlessa, feginn, kátur og jafnvel sjálfumglaður er ég með að hafa fengið Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin 2007 sem besti söngvarinn. Það eru auðvitað margir frábærir söngvarar á Íslandi en við sem tökum þátt í uppfærslum í heimalandinu komum ein til greina. Í þeim hópi voru frábærir söngvarar: Snorri, Finnur, Gunnar, Ágúst og svo auðvitað Hulda Björk sem líka fékk útnefninu (nú má enginn móðgast sem ég taldi ekki upp). Þessi staðreynd gerir heiður minn enn meiri . Mig langar líka til að þakka öllum þeim sem sent hafa mér hamingjuóskir; bæði með Kommentum og svo símleiðis.

En hvað um það, Feneyjarvist minni er brátt lokið. Ég flandra núna á milli Feneyja og Vínarborgar þar sem æfingar eru hafnar á brúðkaupi Fígarós. Eftir aðra sýninguna á Siegfried í gærkveldi tók ég næturlestina til Vínar. Eitthvað er nú minningin um að sofa í lest búin að brenglast því að mig minnti að það væri ekkert mál að lúlla í nokkra tíma, líðandi áfram á brautarteinum. Raunin í nótt var önnur. Kojan mín var hörð og mjó (kannski er ég bara orðinn eitthvað breiðari en síðast) og hitinn í klefanum var örugglega 30 gráður þegar við lögðum af stað. Klefafélagi minn, austurrískur stærðfræðingur, var mjög viðkunnarlegur þangað til hann sofnaði á bakinu og hraut eins og þrumuveður á styrjaldartímum. Mig langaði líka til að lesa örlítið en leslamparnir virkuðu ekki. Því lagðist ég til svefns og þegar ég loks festi blund kviknaði skyndilega á öllum leslömpunum í klefanum þannig að mér varð loks að ósk minni um að kíkja í bók. Ég svaf síðan slitrótt þangað til í morgum þegar við nálguðumst höfuðborg Austurríkis í hita og stækju. Ég á eftir að fara 3-5 svona ferðir á næstu dögum og nóttum. Amen.

Nú er komið nóg af þessu tuði. Síðasta vika mín í Feneyjum var yndisleg enda naut ég nærveru elskulegrar unnustu minnar og þá breytast túristastaðir eins og Feneyjar í rómantíska paradís.

Hér sit ég núna á kaffihúsi í Vín og drekk Melange. Ég bjó 18 ár í Garðinum, 3 ár í Keflavík, 6 ár á höfuðborgarsvæðinu og síðan 8 ár í Vínarborg. Mér líður því obbolítið eins og að vera kominn heim.

Na servas!

Frumsýning í kvöld!

Óperan Siegfried eftir Richard Wagner verður frumsýnd í dag (kvöld) í óperuhúsinu í Fenyjum. Ég syng þar orminn Fáfni og eftir að hafa verið drepinn um miðbik annars þáttar fæ ég að liggja dauður á sviðinu í rúman hálftíma. Félagi minn sem syngur dverginn Mími þarf ekki að liggja dauður nema í 10 mínútur. Hann drepst hins vegar með andlitið ofan í rjómatertu sem hann að vísu má ekki borða neitt því það er sjaldgæft að dauðar persónur megi hreyfa sig eitthvað. Verst er þó að lenda í ómögulegri stellingu þegar maður deyr á sviðinu og geta ekki lagað sig neitt til. Ég hef því tamið mér að deyja á mjög heimilslegan hátt og lenda í hálfgerðri sjónvarpssófastellingu. Það hefur gengið vel hingað til og tekst vonandi það líka á eftir.

Eins og venjulega á frumsýningardegi er ég fullur tilhlökkunar og dálítið spenntur. Það er þannig með þessi tiltölulega stuttu hlutverk eins og Fáfnir er, að söngvari er ekkert minna taugaveiklaður en annars. Ein sena í óperunni er um leið bara einn séns til að standa sig sem ekki má klúðra. Sé hlutverkið lengra er auðvelt að bæta upp fyrir t.d. lélega byrjun þegar líður á sýninguna. Ef mér tekst hins vegar ekki vel upp í senunni minni í kvöld þá verður erfitt að bæta fyrir það liggjandi dauður á sviðinu. Það er sama hvað ég sýni mikinn stórleik í hlutverki líkamsleifa; mitt tækifæri er búið.

Það er auðvitað engin ástæða til að ætla að illa fari. Ég reyni mitt besta.

Hér fylgir tengill á heimasíðu óperuhússins:

http://www.teatrolafenice.it/

Af karnívalgrímum og öðrum grímum!

Örlítið af mér…

Enn á ný hefur vinnan dregið mig af stað út í heim. Núna er ég staddur í Feneyjum að syngja risann Fáfni sem í þetta sinn stjórnar gröfu og reynir að gera útaf við Sigurð Fáfnisbana með skóflunni. En Sigurður heitir ekki Fáfnisbani fyrir ekki neitt. Hann rekur spjót í hjarta Fáfnis svo að vinnugallinn atast allur út í blóði í bland við drullu og smurolíu. Ef Fáfnir hefði náð að drepa Sigurð, héti hann sennilega Fáfnir Sigurðarbani og Hringur Wagners væri bara 6 klukkutíma langur en ekki 14. Þetta er samt allt hið besta mál. Meðsöngvararnir eru frábærir og mér sýnist uppfærslan hin ágætasta.

Feneyjar eru eins og allir vita sundurskornar af síkjum. Oft er því fljótasti ferðamáttinn á milli staða í borginni sjóleiðin þar sem ekki eru neinir bílar og hjól eru ekki leyfileg. Það er líka oft stutt að ganga en það er þrennt sem setur þar strik í reikninginn. Í fyrsta lagi eru allar götur fullar af ferðamönnum. Þeir eru flestir hverjir ekkert að flýta sér og standa gjarnan saman í hóp. Þetta hægir á allri gangandi umferð en það er ekki við ferðamennina að sakast. Þeir eru hingað komnir til að skoða en ekki taka þátt í einhverjum ratleik. Í öðru lagi er mjög auðvelt að villast hérna. Ég var hálfan klukkutíma að finna aftur skammtímaleiguíbúðina mína fyrsta daginn minn. Ég mundi bara að það var pizzería í nágrenninu ásamt búð sem selur karnívalgrímur og svo var þetta líka stutt frá almenningssalerni sem greiða þarf fyrir notkun. Þetta hafðist þó fyrir rest; annars sæti ég ekki hér að skrifa þetta annars tilgangslausa blogg. Í þriðja lagi eru „göturnar“ eða göngustígarnir mjög þröngir. Sá þrengsti er þannig að ekki gæti ég mætt sjálfum mér á honum; annar okkar hefði þurft að bakka til baka og hleypa hinum fyrst í gegn.

En það eru ekki bara karnívalgrímur sem gleðja mig þessa dagana. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera tilnefndur til Grímunnar – íslensku leiklistarverðlaunanna 2007 sem söngvari ársins fyrir hlutverk mitt í Brottnáminu í óperunni s.l. haust. Þetta er mikill heiður fyrir mig og um leið heiður fyrir þessa uppfærslu sem svo sannarlega á allt gott skilið. Verðlaunin verða síðan afhent 15. júni í íslensku óperunni og verður herlegheitunum sjónvarpað beint. Ég verð fjarri góðu gamni; sennilega villtur og fótalúinn í Feneyjum að troðast í gegnum túristahjarðir eða fastur í húsasundi.

Að baða sig í frægðinni!

Heimsókn í heita pottinn er fastur liður þegar ég fer í sund. Ég og Þorkell Logi, æskufélagi minn, ákváðum einn veturinn að mæta í sund á hverjum degi áður en kennsla hæfist í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þetta var fyrir mörgum árum síðan. Við syntum vel fyrstu vikuna og skelltum okkur svo í pottinn á eftir. Nokkrum vikum síðar gengum við framhjá sundlauginni á morgni hverjum og skelltum okkur beint í heita vatnið til að koma blóðrásinni af stað áður en námsefni dagsins var innbyrt.

Í gær mætti ég í sundið aftur, að vísu í Hafnarfirði, en sundferðir mínar eru orðnar að árvissum viðburði í seinni tíð. Minnugur sundferðanna forðum settist ég beint í heita pottinn, þó með þann vilja í farteskinu að synda eina eða tvær ferðir seinna. Nokkru síðar kemur maður í pottinn, á mínum aldri, og sest mér við hlið. Honum er starsýnt á mig og spyr loks hvort við þekkjumst ekki?

Ég, vitandi hvaðan hann þekkir mig: „Það getur meira en verið, ég er ekki svo mannglöggur!
Hann: „Mér finnst ég kannast við þig. Kannast þú ekki líka við mig?
Ég, hugsandi að auðvitað hafi hann bara séð mig í sjónvarpinu eða blöðunum, frægan bassasöngvarann: „Mér finnst ég hafa séð þig áður, er samt ekki alveg viss.
Hann: „Ertu rafeindavirki eða eitthvað í rafmagninu?
Ég, veltandi því fyrir mér hvort ég eigi að koma með brandarann um að ég selji heitt loft. Nei, ekki núna. „Nei ég er ekkert í rafmagninu.
Hann: „Hvað ertu gamall, ég er fertugur?
Ég, minnugur þess að ég er nýorðinn það líka, svara með brosgrettu fremur en brosi: „Jú, ég er víst líka fertugur.
Hann: „Hvar varstu í skóla?
Ég hugsa langt, langt, langt til baka: „Fjölbraut Keflavík.
Hann: „Heyrðu, ég á skyldmenni í Keflavík!
Ég, ekki vitandi hvort þetta séu góðar eða slæmar fréttir: „Já, nei ég er ekki ættaður þaðan
Hann: „Ókei.Hvað gerirðu?
Ég hugsa hvor ég eigi núna að segja heitaloftsbrandarann. Nei aftur. „Ég er tónlistarmaður!
Hann: „Heyrðu! Ertu í hljómsveit? Ég hef verið að setja upp græur fyrir böll og svoleiðis.
Ég veltandi því fyrir mér hvort ég eigi að segja að ég sé óperusöngvari. „Ég er í klassík. Ég heiti Bjarni Thor„, og ég rétti honum höndina. Núna hlýtur hann að fatta þetta!
Hann, án þess að hafa kveikt á fattaranum: „Blessaður„, og svo kynnir hann sig. Ég er núna búinn að gleyma nafninu á honum (dæmigert).

Í stað þess að kynna mig betur og segja honum hvað ég sé frægur; að ég hafi komið fram í útvarpi og sjónvarpi; sungið í Óperunni og Þjóðleikhúsinu og veitt sennilega 10 viðtöl í Mogganum, þá ákvað ég að skella mér í laugina og synda nokkrar ferðir.

Boðskapur sögunnar: Hann er enginn… eða hvað?

2. maí 2007 – Afmælisfærsla

Þetta er afmælisfærsla. Ég er fertugur í dag. Ég hoppaði yfir það í huganum í gær hvernig síðustu „stórafmæli“ hafa verið (35, 30, 25 og 20). Man reyndar lítið eftir einhverjum veislum en komst að því að líf mitt hefur alltaf tekið miklum stakkaskiptum á þessum fimm ára köflum, bæði prívat- og atvinnulega séð.

Það verður líka erfitt að muna eftir afmælisveislunni í þetta sinnið því hún verður ekki haldin. Hins vegar langar mig að skála við kunningja, vini og vandamenn á „Næsta bar“, gegnt óperunni, á föstudagskvöldið (4.5.) kl. 22. Öllum sem mig þekkja er velkomið að mæta en gestum verður boðið upp á nákvæmlega ekki neitt. Ég tek heldur ekki á móti neinum afmælisgjöfum enda bý ég um þessar mundir hálfpartinn í ferðatösku.

Engu að síður myndi það gleðja mitt gamla hjarta að sjá sem flesta og skiptast á faðmlögum, brosum og kossum.

Kannski að bloggið mitt fari batnandi með meiri reynslu og þroska…. og fleiri árum.

Í kóngsins Kaupmannahöfn!

Á leið heim á Klakann dvel ég nú dagstund í Kaupmannahöfn. Þar sem ég lenti um hádegisbil og brottför er ekki fyrr en eftir kvöldmat, var tilvalið að ganga um danskar götur og stræti og kynnast gömlu herraþjóðinni á heimavelli. Ég hef oft og mörgum sinnum flogið um Kastrup en sennilega aðeins tvisvar komið til Kaupmannahafnar og haft þá stutta viðdvöl í bæði skiptin.
Ýmislegt vakti athygli mína og ætla ég hér að koma athugasemdum mínum á tölvutækt form áður en Ísland hellist yfir mig síðar í kvöld.

  1. Eftir 9 vikur á Spáni áttaði ég mig á því að ég er enginn risi. Skandinavar eru einfaldlega stærri en Suður-Evrópubúar. (Þetta eru reyndar ekki ný vísindi). Flugfélagið Spanair gerir hins vegar ekki ráð fyrir því að farþegar þess séu stærri en Maradonna (á lengdina, þ.e.a.s. hærri) Önnur eins fótaþrengsli hef ég aldrei upplifað. Ég reyndi að setjast í sæti 26E en kom neðri hlutanum einfaldlega ekki niður í sætið þar sem hnén sátu föst í næstu sætaröð. Því fór að ég sat í sætum 27A og 27B, þ.e.a.s. efri-hluti líkama míns var í 27A og sá neðri í 27B.
  2. Norðmenn eru frændur okkar, en það eru Danir ekki. Þetta var ég búinn að lesa í einhverri erfðarannsókn. Við höfum allt önnur gen en þeir og er ég þá að tala um þá Dani sem af dönsku bergi eru brotnir (þetta er auðvitað ekki besta líkingamálið út frá jarðfræðilegu sjónarmiði).
  3. „Innrás“ íslenskra fyrirtækja var mér ekki mjög sýnileg. Að vísu rak ég augun í auglýsingu frá Glitni og sá skrifstofu Icelandair á „Strikinu“ en meira var það nú ekki.
  4. Nokkrar götur heita í höfuðið á íslenskum stöðum og persónum. „Egilsgade, Bergthorasgade, Njalsgade, Strulasgade, Vestamannagade og Reykjaviksgade“, svo nokkrar séu nefndar. Á kortinu sem ég sá þetta virðist hverfið heita „Islandsbrygge“. Þarf ég að skammst mín fyrir að hafa ekki vitað þetta?
  5. Eitthvað var ég búinn að heyra af „ókeypisblaðastríði“ í Danmörku og þar er víst íslenskt fyrirtæki með í baráttunni. Ekki veit ég hvaða blað var það íslenska en ég fletti nokkrum í lestinni á leið upp á flugvöll. Ég er hins vegar mjög hrifinn af stærðinni eða brotinu. Þessi blöð er hægt að lesa í rútum, lestum eða flugvélum án þess þess þó að sessunauturinn fái á tilfinninguna að maður sé að reyna að fela hann.
  6. Á göngu minni framhjá Tivoli komst ég að því að það til fólk sem borgar fyrir það að fá að öskra. Þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir en ég fæ einmitt borgað fyrir að öskra. Eitt skemmtitækið í útjarði skemmtigarðsins reyndi með miðflóttaaflinu að fleygja líffærum gesta sinna á hafsauga á meðan líkamar þeirra voru fast bundnir í sætum tækisins. Þessi „geimskotsupplifun“ er sennilega svo stórkostleg að maður finnur sig knúinn til þess að öskra, án þess þó að fá borgað fyrir það.

Nú læt ég staðar numið. Hins vegar er óhjákvæmilegt að ég bendi á að viðbrögðin við síðustu færslu minni hafa verið heldur lítil. Ég skil samt skilaboðinn. Ég á greinilega að búa í útlöndum áfram.

😉

Einhverstaðar verða vondir að vera!

Eins og flestum lesendum þessarar síðu er kunnugt hafa fjölskyldumál mín tekið breytingum nú í vetur.

Í framhaldi af því er ég að leita að leiguíbúð á höfuðborgarsvæðinu og ákvað því að misnota bloggið til að auglýsa það.

Reyndar bý ég starfs míns vegna hálft árið á einhverjum hótelum eða í skammtímaleigu en einhvers staðar verður maður að eiga sitt heimili. Þ.a.a. er ég ekki einn á ferð…..

Kannski „á einhver/veit einhver um“ íbúð í Rvík og nágrenni, a.m.k. 3ja herbergja til leigu frá og með sumrinu/haustinu 2007? Leiguverð á Íslandi hefur hækkað mikið á síðustu árum samfara hækkandi húsnæðisverði og ekki hlaupið að komast í gott húsnæði á sanngjörnu verði.

Ef þið getið hjálpað þá er netfangið mitt

bjarnibass@t-online.de

Fyrir þá sem nenntu að lesa þetta er hér stutt spaug í lokin:
Hvað er grænt, en verður rautt þegar ýtt er á takkann?

Svar:(Lesist afturábak) rexim í ruksorf

Feðgar í fótboltaham

Þau merkilegu tíðindi gerðust á laugardaginn að við feðgarnir skelltum okkur á völlinn. Strákurinn minn verður fermdur í maí og af því tilefni fékk hann ferð á leik Manchester United í gjöf frá mömmu sinni. Nú var stóra stundin runnin upp og eftir 0:1 í hálfleik tókst meisturunum frá Manchester að sýna Svartbrenningum (Blackburn) hvernig leika á knattspyrnu og unnu verðskuldað 4:1. Þetta var mjög ánægjulegt því strákurinn hefði sennilega neitað að láta ferma sig ef heimamenn hefðu ekki farið með sigur af hólmi.

Ég var fjarri góðu gamni enda staddur við Miðjarðarhafið að selja heitt loft út sjálfum mér. Til að samgleðjast syninum skellti ég mér hins vegar á nýja leikvanginn hér í Barcelona að sjá Börsunga taka á móti liði Deportivo þennan sama dag. Leikurinn minnti einna helst á góða óperusýningu. Aðalsöguhetjan var Ronaldinho og í öðrum stórum hlutverkum voru Messi, Puyol og síðan Eto’o. Mæting var nokkuð góð; sennilega 2/3 af sætum þessa 105.000 sæta leikvangs voru setin og stemmingin stórkostleg. Áhorfendur fögnuðu líka aðalpersónunni eins og frægum tenór á óperusviði. Varla mátti hann koma við boltann öðruvísi en unaðsstunur færum um áhorfendur. Einleikur hans á stundum minnti á flúrsöng eins og hann gerist bestur í enskum geldingaskólum og sendingarnar líktust frösum sem hitta áhorfendur beint í hjartastað. Eins og öðrum stórstjörnum var honum auðvitað fyrirgefið þegar skot hann flaug langt yfir mark andstæðinganna, alveg eins og þegar frægir tenórar klúðra háa tóninum. Þegar úrslitin voru ráðin og leiktíminn að renna út byrjuðu skynsamir áhorfendur að flýta sér heim til að lenda ekki í öngþveiti. Gestir á óperusýningu flýta sér margir hverjir í fatahengið til þess að þurfa nú örugglega ekki að standa 5 mínútur innan um samborgara sína.

Ég hefði viljað sjá landa minn Eið leika með, en fyrir honum er komið eins og mér í óperunni í Barcelona; hann sat á bekknum og horfði á allt sem hann hefði leyst betur úr hendi en samherjarnir alveg eins og ég horfi á kollega mína í fyrsta „kasti“ Hollendingsins og hugsa: „Þetta get ég nú líka!“.

Hvað um það, eins og í óperunni var rífandi stemming og flestir voru glaðir að leikslokum.

Eitt er sennlega öruggt: Eiður Smári syngur áræðanlega betur en ég spila fótbolta!

Hvað á barnið að heita?

Nafnið Bjarni er séríslenskt og er ég mjög stoltur og ánægður með það. Ég á mér t.a.m. engan alnafna þó margir heiti Bjarni Thor og sumir Thor Kristinsson. Í útlöndum er nafnið mitt hins vegar mjög framandi og beri ég það fram eins og siður er á Íslandi horfir fólk á mig stórum augum. „Bjaddddni!“

Þetta hefur orðið til þess að ég er orðinn flínkur í að stafa nafnið mitt á framandi tungum. Á þýsku kann ég þessa romsu utanað: „B wie Berta, Jod, A, R wie Richard, N wie Nordpol und I wie Ida“.

Núna er ég staddur á Spáni og gagnast mér þýskukunnáttan heldur lítið þegar kemur að því að segja til nafns. Spánverjar blanda líka saman B og V og heiti ég því stundum „Vjarne“. Ég lendi auðvitað ekki oft í því að þurfa að segja hvað ég heiti en á kaffihúsinu Starbucks eru kúnnarnir beðnir um segja til nafns svo karamellumachíatið þeirra ruglist ekki við súkkulaðifrapúccínó næsta viðskiptavinar. Þar sem mér þykir ameríski kaffsopinn góður er ég búinn að upplifa allar mögulegar útgáfur af nafninu mínu að undanförnu. Þetta var eiginlega orðið dálítið hvimleitt svo ég hugsaði mér að líklega væri best að segja ósatt og ljúga til nafns.

Í gær sló ég síðan til í fyrsta sinn. Þegar merkja átti kaffibollann minn sagðist ég einfaldlega heita „Tarzan“. Þetta olli engum misskilningi og starfsmaður Starbucks skrifaði nýja nafnið mitt hárrétt með bros á vör. Kvenkyns förunautur minn í þessari ferð pantaði sér engan kaffidrykk en hefði örugglega gefið upp nafnið „Jane“ hefði til þess komið.

Þetta hefur fengið mig til að hugsa um hvort ekki væri rétt að taka upp listamannanafn sem þjálla væri í munni en það sem mér var gefið í Kálfatjarnarkirkju forðum daga. Ég velti því einu sinni fyrir mér að kalla mig bara Bjarni Thor en þar sem orðið Tor á þýsku merkir eiginlega kjáni þá lét ég af þeirri áætlan minni.

Enn að heita bara Tarzan? Það myndi vekja mikla athygli og ég fengi sennilega fullt af skemmtilegum atvinnutilboðum. Hver vill ekki heyra Tarzan syngja Sarastro? Eða Wagner? Gæti verið spennandi.

Ímyndið ykkar eftirfarandi:

Tarzan og Jónas Ingimundarson flytja Vetrarferðina í Salnum n.k. laugardag.

Það yrði góð mæting!