Flokkaskipt greinasafn: Smásögur

Uppkast fyrir sýningu!

Tenorinn var byrjaður að kúgast, enda ekki nema tvær mínútur þangað til hann átti að fara á sviðið.
– „Þetta verður allt í lagi“, sagði ég meira af vana en meðaumkun. Á óperusviðinu er þessi huggulegi söngvari ekki aðeins þekktur fyrir að syngja vel heldur þykir hann líka með betri leikurum. Á hliðarsviðinu er hann hins vegar frægur fyrir það hvað hann er ofsalega taugaóstyrkur rétt áður en hann á að fara inn á sviðið.
– „Ég get ekki sungið í kvöld“, sagði sá huggulegi og leit til mín. Þrátt fyrir allt meikið sá ég að hann var orðinn grænn í framan. Það var rúm mínúta í að við ættum að labba saman á sviðið, glaðhlakkalegir og léttir á fæti.
– „Það styttist í ykkur!“, sagði sviðstjórinn og reyndi að brosa hughreystandi.
Meira þurfti ekki til. Tenórinn hljóp fram á gang og þrátt fyrir að hann næði að loka á eftir sér þá bárust æluhljóðin til okkar í gegnum hurðina.
– „Það mátti ekki tæpara standa“, sagði sviðsstjórinn og var greinilega létt.“Tilbúnir!“
Tenorinn kom hlaupandi inn aftur, þurrkandi framan úr sér með handklæði. Hann henti því í sviðstjórann og við stukkum saman á sviðið hlæjandi og kátir.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem kollegi minn þurfti að æla rétt áður en við áttum að fara á sviðið og þetta var sennilega ekki í það síðasta. Hins vegar var þetta fyrsta sýningin með nýja austurríska sópraninum. Hún hafði alveg fallið fyrir daðrinu í honum á æfingunum og ég vissi að hann myndi notfæra sér það í ástarsenunni sem hæfist þegar ég færi af sviðinu. Hún hafði enga hugmynd um hvað hann hafði verið að gera rétt áður en hann fór á sviðið og þegar þau kysstust myndi hann reka tunguna upp í hana eins langt og hann gæti.
Verði henni að góðu!

Flær á ferð og flugi!

Þessi er stolin, en dagsönn!

Tvær voru flær sem oft skelltu sér saman í óperuna. Þegar frumsýna átti Tristan og Isolde mættu þær báðar í andyrri óperuhússins rétt fyrir sýningu.
– „Við sjáumst síðan á morgun“, sagði önnur flóin áður en leiðir skyldu og sýning hófst.
Daginn eftir hittust þær á hárgreiðslustofu og báru saman bækur sínar.
– „Hvernig fannst þér?“, spurði önnur.
– „Þetta var frábær sýning“, svaraði hin. „Sópransöngkonan hefur aldrei verið betri og mér fannst uppfærslan líka skemmtileg. Ég var svo heppin að fá stæði í hárkollu á gamalli konu á 4. bekk. Frábær staðsetning!“
– „Iss, það er nú ekki mikið!“, sagði sú fyrsta „Ég var í skeggi hljómsveitarstjórans. Hljómburðurinn þar var vægast sagt frábær og svo sá ég öll smáatriði hjá söngvurunum. Hreint út sagt, stórkostlegt!“
– „Hvernig fannst þér lokasenan?“
– „Ég missti nú eiginlega af henni. Þannig var að í miðjum öðrum þætti þurfti hljómsveitarstjórinn að hnerra og við það kastaðist ég á loft og flaug yfir hljómsveitargryfjuna.Ég lenti síðan í hálsmálinu á sópraninum, rann niður milli brjóstanna á henni og eitthvað niður eftir líkamanum.“
– „Þú varst heppin að sleppa lifandi!“
– „Já, ég rotaðist rétt eftir lendinguna. Það skrítna er að í morgun þegar ég vaknaði, þá var ég aftur stödd í skegginu á hljómsveitastjóranum!“

Samtal við stjörnu, skýjum ofar

Based on a true story

Þetta var á námsárunum mínum. Ég hafði verið í nokkurra daga fríi á Íslandi og var nú á leiðinni aftur til Vínarborgar. Þar sem ekki var um neitt beint flug að ræða þurfti ég að skipta um vél í Kaupmannahöfn. Á vélinni frá Keflavík tók ég eftir því að ein skærasta stjarnan meðal íslenskra óperusöngvara var líka um borð; að vísu ekki á almennu farrými eins og ég heldur á Saga class. Gott uppeldi mitt varð til þess að ég ákvað að láta stjörnuna í friði jafnvel þó mig langaði heilmikið til að kynnast henni. Við vorum jú næstum því starfsbræður þó svo að ég væri að stíga mín fyrstu skerf en hann löngu búinn að ganga á öllum stærstu óperusviðum heimsins. Alla leiðina var ég samt að gjóa augunum fram í Saga Class og sjá hvort ég kæmi ekki auga á hann og af og til heyrði ég hressilegan hlátur berast aftur eftir vélinni sem sennilega kom úr þessum „óskabarka“ íslensku þjóðarinnar.
Loks lentum við í Kaupmannahöfn og eftir að hafa snarað í mig danskri pylsu á Kastrup hélt ég í áttina að seinni flugvélinni minni þann daginn sem flaug leiðina frá Kaupmannahöfn til Vínarborgar. Ég er rétt kominn inn í vélina þegar ég rek augun í stjörnuna mína, sitjandi í næstfrestu röð, auðvitað á viðskiptafarrými. Ég tók mig saman í andlitinu, rétti fram höndina og kynnti mig.
„Já blessaður“ svaraði stjörnusöngvarinn og tók hlýlega í höndina á mér. „Ertu líka á leið til Vínar?“ spurði hann mig með norðlenskum hreim.
„Jú, ég er að klára söngnámið í vor“ svaraði ég hálf skömmustulegur.
„Heyrðu, það væri gaman að spjalla við þig.“ sagði stjörnusöngvarinn. „Viltu ekki koma fram í vél þegar hún er komin á loft og ræða málin?“
„Geri það“ svaraði ég glaður með að hafa fengið þessar móttökur.
Þegar vélin var komin á loft og sætisbeltaljós höfðu verið slökkt, stóð ég á fætur, gekk fram í viðskiptafarrými og settist við hliðina á stjörnunni, sem reyndar er töluvert lágvaxnari en ég, líka í sæti.
„Hvernig ertu í honum?“ spurði hann mig og ýtti í magann á mér.
„Bara góður“ svaraði ég en ákvað að vera ekkert að pota til baka í stjörnuna. Við ræddum síðan hitt og þetta og m.a. komst ég að því að hann væri að fara að syngja í Ríkisóperunni í Vín.
Eftir stutta stund kom yfirflugfreyjan til mín og spurði hvort ég væri í réttu sæti.
Ég svaraði því til að ég væri auðvitað í vitlausu farrými en langaði til að tala við landa minn um stund. Ég myndi síðan setjast aftur í mitt sæti áður en að maturinn væri borinn fram.
Flugfreyjan tjáði mér þá að „því miður“ væri það stefna flugfélagsins að láta farþega sitja í réttu farrými alla leiðina.
Í þessum töluðu orðum hallaði stjarnan sér upp að mér og sagði glottandi:
„Hún er nú ekki búin að fá það lengi, þessi!“

Ef þú heitir Hanna skaltu ekki lesa þessa frásögn!

„Blessaður, og takk fyrir síðast!“ sagði brosmildur bariton við mig á æfinu einn daginn.
„Blessaður“ sagði ég og brosti á móti en gat ómögulega komið því fyrir mig hvar ég hafði séð þennan súkkulaðibrúna söngvara áður.
„Þú er bara kominn í stóru rullurnar?“ spurði hann mig með of miklum undrunartón; eins og ég hefði ekkert með stór hlutverk að gera.
„Jú, jú.“ svaraði ég um leið og ég reyndi að muna hvaðan ég þekkti þetta vöðvabúnt. „Hvað er annars að frétta af þér?“
„Við Hanna erum búin að gifta okkur!“ svaraði hann brosandi og sýndi mér gylltan giftingarhring á kaffibrúnum baugfingrinum.
„Til hamingju!“ sagði ég ekki bara til hans heldur líka til mín sem loksins var að fá minnið aftur.
„Hanna er ólétt!“ hélt hann áfram um leið og hann leit á afturhluta stúlkunnar úr búningadeildinni sem gekk fram hjá okkur í þessu. „Kominn 7 mánuði á leið!“
„Frábært! Kom hún með þér?“ spurði ég og fylgdi augnaráði hans eftir, bara svona fyrir kurteisissakir.
„Nei, hún treysti sér ekki í flugið“, svaraði hann. „Ég er bara einn á ferð! Eins og á sumarhátíðinni um árið!“
Lokins áttaði ég mig alveg á manninum. Við höfðum sungið saman nokkrum árum áður á óperuhátíð þar sem sýningarnar fóru fram undir berum himni. Þar hafði ég kynnst honum og unnustu hans, Hönnu. En ég mundi líka eftir öðru.
Allir söngvararnir höfðu sungið með litla hljóðnema í hársverðinum til þess að það heyrðist í þeim fram í öftustu röð. Hljóðnemarnir voru tengdir við senda sem við bárum undir belti og sendu allt sem við sungum og sögðum í lítið hljóðver sem síðan kveikti og slökkti á okkur eftir því hvort við vorum á sviðinu eða ekki. Á einni af lokaæfingunum fannst baritóninn ekki þegar hann átti að fara á sviðið. Það var því brugðið á það ráð að kveikja á sendinum hans til að finna út hvar hann væri.
Við fengum aldrei að vita hvar hann var en af hljóðunum að dæma sem bárust um hátala hljóðkerfisins var ljóst að hann var að gera eitthvað allt annað en að hita röddina upp fyrir æfinuna. Strákarnir í hljóðdeildinni slökktu auðvitað strax á stununum og öskrunum en hleruðu í hvelli alla aðra senda til að finna út hver ætti hina röddina sem borist hafði með í kerfið.
Feimin og hlédræg pólsk sópransöngkona átti hinn hljóðnemann. Hún heitir ekki Hanna!

Fljótandi tilhlökkunarefni!

„Ég get ekki sagt að ég hlakki til“ sagði fyrrum skólasystir mín sem sat andspænis mér á kaffistofu óperuhússins.
„Hvað meinarðu?“ spurði ég um leið og ég velti því fyrir mér hvers vegna þessi fyrrum fegurðardrotting væri komin með svona mikið af hrukkum, langt fyrir aldur fram. „Þú ert nú ein besta Travíatan í bransanum í dag!“
„Jú, jú“ sagði hún brosandi svo að enn fleiri hrukkur bættust í hópinn.
„Þetta hlutverk er líka eins og skrifað fyrir þig!“ sagði ég og vonaði að hún miskildi mig ekki.
Traviata er reyndar ein frægasta gleðikona óperubókmenntanna, en það var ekki það sem ég meinti eða vildi meina, heldur að rödd og leikhæfileikar vinkonu minnar nytu sín vel í þessu hlutverki.
„Ég er Traviata. Traviata er ég!“ sagði hún og horfði yfir kaffistofuna eins og hún væri að bíða eftir að allir stæðu á fætur og byrjuðu að klappa!
Vissulega er orðspor þessarar vinkonu minnar ekki fallegt. Hún á að hafa komist í gegnum margar áheyrnarprufur og fengið mörg hlutverkin út á allt annað en að vera góð söngkona. Margir hljómsveitarstjórar eiga að hafa verið með fleira á lofti en tónsprotann þegar hún er annars vegar og margir leikstjórarnir hafa víst hrifist meira af tilburðum hennar í rúminu en á sviðinu. Kannski voru tíðar lostageiflur og grettur skýringin á öllum þessum hrukkum.
„Af hverju hlakkar þú ekki til?“ spurði ég.
„Mér finnst ekki gaman að syngja með Carlo!“ svaraði hún og meinti snaggaralegan tenór frá Perú átti að syngja Alfredo elskhuga hennar þetta kvöldið!
„Carlo er fínn söngvari!“, sagði ég undrandi. „Mér finnst hann líka mjög sannfærandi í þessum elskhugahlutverkum!“
„Jú, jú“ játti hún. „Hann frussar bara svo mikið framan í mig þegar hann syngur!“
Ég sá fyrir mér sveittan tenorinn frussa framan í vinkonu mína í öðrum þætti þegar hann segir henni til syndanna!

Það er kannski fínt að hún er svona hrukkótt. Munnvatnið úr tenornum rennur þá síður niður andlitið hennar og eyðileggur meiköppið!

Dans á rúmenskum rósum!

Önnur saga fyrir nýja lesendahópinn:

„Hefuðu sofið hjá balletdansara?“ spurði síðhærði aðstoðarmaðurinn í leikmunadeildinni mig um leið og hann rétti mér beyglað sverð sem sennilega var búið að taka þátt í fleiri sýningum en allir söngvarar kvöldsins samanlagt.
„Nei, aldrei!“ svaraði ég og var fljótur að fara yfir „listann“. „Þú meinar kvenkyns balletdönsurum, er það ekki?“
„Alveg eins.“ svaraði þessi sérkennilegi strákur sem alltaf nær að koma mér úr jafnvægi rétt áður en ég á að fara á sviðið. „Ég lúllaði hjá henni um daginn“ hélt hann áfram og benti með gervikyndli á rúmensku balletdansmærina hinum megin við sviðið sem lá á gólfinu eins og það væri búið að brjóta hana saman.
„Með henni?“ spurði ég undrandi „Já en hún er ekki nema hálfur annar metri á hæð og örugglega ekki meira en 30 kg.“
„Hún er rosalega liðug! Við prófuðum ótrúlegar stellingar“ sagði hann og rétti mér líka kyndilinn til að geta sýnt mér með höndunum hvernig hún hafði flækt fótleggjunum utan um hann eins og þegar könguló pakkar inn dauðvona húsflugu.
„Svo setti hún aðra löppina aftur fyrir háls“ hélt hann áfram og settist á gólfið til að reyna að sýna mér fáfróðum óperusöngvaranum hvað hann ætti við.
Ég sparkaði kannski óeðlilega fast í hann þegar mér var litið yfir sviðið og sá rúmensku ballettdansmærina horfa á okkur með drápslegu augnaráði eins og einræðisherra frá Austur-Evrópu væri á ferð.
„Hún er að fylgjst með þér“ hvíslaði ég til hans og brosti mínu fegursta yfir sviðið eins og ekkert hefði átt sér stað.
„Inn á svið!“ var kallað til mín af sýningarstjóranum. Ég rétti vini mínum kyndilinn og stökk inn á sviðið.
Hugsandi um rúmenska balletdansmær dansandi upp í rúmi reiddi ég sverðið á loft og bjóst til kljúfa tenorinn í herðar niður og ljúka þar með óperunni.
Þá loksins áttaði ég mig á því að ég hafði hent sverðinu í sviðsmanninn og stóð nú með gervikyndil í hægri hendinni.
Tenórinn dó þetta kvöld sem önnur. En núna úr hlátri.

Ljósblá saga úr óperuheiminum!

Ellý nokkur Ármanns bloggar á hverjum degi á ellyarmanns.blog.is. Lesendur hennar eru mörg þúsund á dag enda er viðfangsefnið „djarfar (uppfundnar) reynslusögur“ vinkvenna hennar. Sögurnar eru mjög skemmtilegar og þó ég kíki inn annað veifið geri ég ráð fyrir að lesendur síðunnar séu fyrst og fremst konur á öllum aldri sem nægir greinilega ekki að horfa á góðan fótboltaleik til að fá útrás fyrir ónýttu orkuna sem verður til þegar hversdagsleikinn er ekki nógu gefandi.

Þar sem ég er þjófóttur á góðar hugmyndir ákvað ég að skrifa eina svona „ellýármanns“ sögu úr óperuheiminum og setja hana á bloggið mitt. Með því er ég auðvitað að reyna að fjölga lesendum síðunnar svo þeir verði kannski einhvern tímann hundrað eða fleiri á dag. (Söngvarar þurfa athygli, sama hver hún er).

Hér er meistaraverkið:

„Það gerist á hverri einustu sýningu“ sagði tenórsöngvarinn, vinur minn sem leitar gjarnan til mín þegar eitthvað bjátar á.
„Ertu ekki að grínast?“ svaraði ég og átti erfitt með að fara ekki að brosa. „Og hvernig tekst þér að komast í gegnum sýninguna?“
„Þetta hefur engin áhrif á röddina en ég á bara erfitt með ganga eðlilega niður sviðið þegar dúettinn er búinn!“ svaraði vinur minn og leit í kringum sig alveg eins og hann væri að ganga úr skugga um að enginn væri að fylgjast með okkur.
„Hefur hún orðið vör við þetta?“ spurði ég og meinti brjóstgóðu kanadísku sópransöngkonuna sem syngur umræddan dúett með vini mínum á hverri sýningu.
„Auðvitað! Ég stend þétt upp við bakhlutann á henni!“ svaraði tenorinn sem var orðinn jafnrauður í framan og hann verður þegar hann syngur háa séið.
Ég gat ekki still mig um að hlæja. Þetta hafði aldrei komið fyrir mig og er ég þó búinn að standa á sviði mun lengur en vinur minn. En að manni standi á sviði. Það hafði ég aldrei heyrt um.
„En það er eitt sem ég skil ekki!“ spurði ég. „Þú ert löngu kominn út úr skápnum og færð svo bara bóner þegar þú nuddast aftan í konu sem gæti verið mamma þín?“
„Ég fæ ekki standpínu út af henni!“, svaraði vinur minn glottandi. „Það er tónlistin í dúettinum sem setur allt í gang!“