Flokkaskipt greinasafn: Um daginn og veginn

Það er dýrt að vera til… ó þó ekki alltaf!

Utan á hurðinni á íbúðinni sem ég dvel í hérna í Vínarborg hékk í gær poki með auglýsingapésum. Einn þeirra var frá versluninni SPAR. Ég var kominn að því að henda þessu í ruslið þegar ég rak augun í verðið á Puntigamer bjórdós: 59 cent.

Ég ákvað því að taka nokkrar „stikkprufur“ út úr þessum bæklingi. Hér koma þær:

Bjórdós (1/2 l) Puntigamer 0,59€   50 kr
Súkkuladi (100 gr) Milka 0,55€   46 kr
Snakk (170 gr) Pringles 1,19€   99 kr
Gúrka (1 stk)   0,39€   33 kr
Tómatar (1 kg)   0,99€   83 kr
Kjúkl. bringa/læri (1 kg) Huber 3,70€   316 kr

Þess ber auðvitað að geta að um tilboðsverð er að ræða. Ég er reyndar ekki alveg með íslenska verðlagið á hreinu en eitthvað segir mér að ég þurfi að hafa aðeins meiri pening í buddunni þegar þessar vörur eru keyptar á Fróni.

Kosningaspá!

Ég vaknaði í morgun og ákvað að koma með kosningaspá.

Hún byggir á

 • 29 einingum í stjórnmálafræði sem ég tók fyrir 26 árum síðan
 • heppni en ég vann hæsta vinninginn í happdrætti SÍBS, sem drengur. Reyndar fylgdi óheppni í kjölfarið því verðbólgan borðaði vinninginn minn næstu ár á eftir.
 • tilfinningingu minni
 • þörf minni fyrir að hafa eitthvað til málanna að leggja

Úrslit alþingiskosninganna 2007 (spá)

 • Framsóknaflokkurinn – 13%
 • Sjálfstæðisflokkurinn – 37%
 • Frjálslyndir – 7%
 • Íslandshreyfingin – 3%
 • Samfylkingin – 25%
 • Vinstri grænir – 15%

Ég vona að ég fái nokkur atvinnutilboð þegar talið hefur verið upp úr kjörkössunum.

Páska(tuð)spjallið!

Í þessu páskaspjalli mínu langar mig að víkja orðum mínum að listgrein sem nú er í útrýmingarhættu. Óperuflutningur er fyrirbæri sem brátt mun heyra sögunni til. Þeir sem ánetjast óperutónlist eru snobbaðir, gamaldags sérvitringar sem ekki er mark takandi á. Þeir sem flytja hana eru þeim mun verri; egócentrískir aumingar (nenna ekki að „vinna“) sem halda því fram að þeir eigi að fá borgað fyrir það sem allir geta gert, a.m.k. í sturtu eða undir áhrifum áfengis.Í gær sá þann annars þann ágæta spurningaþátt „Meistarinn“ á Stöð 2. Þar áttust við Karl Pétur Jónsson og Katrín Jakobsdóttir og stjórn þáttarins var í höndum hins fjölhæfa Loga Bergmanns Eiðssonar. Ég dáðist að báðum þátttakendum. Þau virtust bæði geta svarað spurningum um líðandu stund svo og hitt og þetta merkilegt eins og hver ætti hina og þessa bloggsíðuna. (það var reyndar ekki spurt um mína bloggsíðu, sennilega of auðvelt). Þegar komið var að valflokkum kenndi ýmissa grasa og m.a. var hægt að velja flokkinn „óperur“. Ég vonaði að þessi flokkur yrði fyrir valinu og varð mér að ósk minni þegar Karl ákvað að vera „frakkur“ og spreyta sig á þessu erfiða viðfangsefni. Tók stjórnandi þáttarins undir það með Karli og fannst hann full bjartsýnn að reyna við þennan afar sérhæfða flokk. Spurt var um hvaða tvær óperur eftir Maxcagni og Leoncavallo væru oftast fluttar saman (ekki svo létt spurning). Svarið vissi Karl ekki og ekki heldur Katrin. Logi Bergmann las upp svarið „Cavalleria Rusticana og I Pagliacci“ og vandaði sig mikið við að segja nöfnin rétt. Hlæjandi hrósaði hann sjálfum sér fyrir að hafa náð að bera þessi ósköp rétt fram (sem honum tókst reyndar ekki) og mátti skilja á fasi hans og þátttakendanna að þekkingarleysi í þessum málaflokki væri ekkert til að skammast sín fyrir. Hefði spurningin verið úr Njálu, Terminator-myndunum eða myndbandasafni Britney Spears væri vankunnátta hins vegar sennilega pínleg.

Þarna fannst mér fordómar vera á ferðinni og þar sem þeir ráða ríkjum á viðfangsefnið (í þetta sinn óperan) sér ekki viðreisnar von.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem mér finnst þessari listgrein misboðið í sjónvarpinu. Mér er minnisstætt þegar rússnesk sópransöngkona flutti lag úr ljóðaflokki sem heitir „Barnaherbergið“ í Kastljósinu. „Að sjálfsögðu“ var ljóðið ekki textað; hefur sennilega verið of dýrt og kynnirinn kynnti verkið sem „rússneskt lag“ sem nú yrði flutt! Söngkonan hefði alveg eins getað farið með rússneska súpuuppskrift eða sungið upp úr reglugerðum sovéska kommúnistaflokksins. Það hefði engu breytt því tónlist sem þessa skilur enginn og enn færri hafa af henni ánægju.

Óperan er því sennilega í útrýmingarhættu þó binda megi vonir við að dömubindaframleiðendur haldi áfram að nota stef úr Carmen (ópera eftir Bizet) í sjónvarpsauglýsingum sínum.

Breytir þar engu þó fólk sé ennþá að hafa orð á því við mig hvað „Brottnámið úr kvennabúrinu“ í Íslensku óperunni s.l. haust hafi verið skemmtileg og eftirminnileg sýning.

Skyldu Logi Bergmann, Karl og Kristín einhvern tímann hafa komið í óperuna?

Home is where the hamburger is!

Forvitnin er manninum eðlislæg. Hún er ein af þeim eiginleikum sem varð þess valdandi að við búum í húsum en ekki í hellum eða trjám (nema Fjalla-Eyvindur og Tarsan auðvitað). Við Íslendingar erum þar engin undantekning. Við erum nýjungagjarnir á öllum sviðum, hvort sem um er að ræða tækni, vísindi, lífsstíl eða tísku. Margar geymslurnar eru fullar af sódastrími og fótanuddtækjum; fjárfestingar í nútímaþægindum þar sem landinn leitar að marki hamingjunnar í lífsgæðakapphlaupinu. Ég er þar engin undantekning, þó hvorki sé til fótanuddari eða gosgerðarvél í geymslunni minni.

Forvitnin víkur þó stundum fyrir hræðslunni, sem getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Einn vettvangur þessarar hræðslu er meltingarvegurinn að bragðlaukunum meðtöldum. Við látum einfaldlega ekki ókunnan mat inn fyrir varir okkar. Hér við Miðjarðarhafið hefur matarmenningin þróast og dafnað í mörg hundruð ár. Spánverjar eru m.a. frægir fyrir smárétti sína, Tapas, sem auðvelt er að skola niður á heitum sumarkvöldum í góðum félagsskap. Það er því af nógu að taka þegar sest er við spænskt matarborð en sumt er fjarlægðri fiskiþjóð auðvitað framandi eða einfaldlega ekki nógu spennandi. Ég meina sko….. saltfiskur á brauði!!!!!!!

Eftir langa veru fjarri heimahögum hefur sjálfum mér tekist að vinna bug á þessari hræðslu. Forvitnin hefur tekið völdin og ég er óhræddur við að panta eitthvað nýtt af matseðlinum; eitthvað sem ég hef aldrei smakkað áður. Rödd skynseminnar segir mér að engum eiganda veitingastaðar detti í hug að setja vondan mat á matseðilinn, þó vissulega sé smekkur manna misjafn.

Ég ákvað samt í kvöld, eftir mánaðardvöl í Barcelona, að skella mér á amerískan skyndibitastað og fá mér franskbrauð með nautahakki og túmatsósu, þ.e.a.s. hamborgara. Í röðinni við hliðina á mér var hópur ungmenna í sinni fyrstu Spánarferð.

Þetta voru auðvitað Íslendingar.

Höfum við það allt of gott?

Eftir 5 mánaða næstum sleitulausa veru á eylandinu ástkæra er mál að halda í víking og syngja fyrir heiminn. Það er meira en áratugur liðinn síðan ég „bjó“ svona lengi á Íslandi og margt hefur breyst; já, ansi margt.

Mest áberandi breytingin er að Íslendingar eru orðnir svo ríkir. Ekki reyndar allir en sumir eru orðnir alveg ofboðslega ríkir; moldríkir, forríkir eða kannski drulluríkir ef við bætum orðum við á sama hátt. Það hefur orðið til stétt manna sem kann ekki aura sinna tal. Þetta er nýtt í gömlu Dananýlendunni þar sem allir voru sömu stéttar; við vorum öll „2nd class“ á eftir herraþjóðinni Dönum.

Bilið milli þeirra ríku og þeirra fátæku er því orðið breiðara en nokkru sinni fyrr. Þetta gæti leitt það af sér að einhverjir spyrji sig hvort eignaskipting sem þessi sé yfirhöfuð sanngjörn? Fyrr á öldum var það spurning um líf og dauða að vera í réttri stétt. Þeir fátæku löptu dauðann úr skel en sættu sig við kjör sín á þeim forsendum að þeirra biði betra líf á himnum að loknu hinu jarðneska, væru þeir hlýðnir og góðir þjóðfélagsþegnar.

Nú á tímum tala fæstir um aðgöngumiða í Himnaríki sem réttlætingu misskiptinar. Við höfum hins vegar, í nafni lýðræðis, samþykkt ákveðnar leikreglur sem gera suma ríka og aðra fátæka. Síðan höfum við „ríkið“ sem sér um dreifa aðeins úr lífsgæðunum í formi skattheimtu og velferðarkerfis.

Á Íslandi deyr sem betur fer enginn lengur úr hungri. Við eigum flest í okkur og á og höfum næstum öll einhverja vinnu. Það er m.a.s. ekki lengur hægt að bjóða hinum venjulega Íslendingi að starfa í fiski. Önnur og „þrifalegri“ störf eru í boði og því verður að bjóða útlendinum að flytja til landsins til að moka í kyndiklefa þjóðarskútunnar.

Landinn þeysist síðan áfram í lífsgæðakapplaupinu á neyslusterum í leit að hamingjunni. Öll tökum við þátt í þessu hvaða skoðun svo sem við höfum á því. Og stefnan er klár. Við erum að hlaupa í westur. Ísland og Íslendingar líkjast meir og meir landnemum Ameríku.

Neysluhyggjan er hin nýju trúarbrögð. Sölubæklingar eru biblíur nútímans, Kringlur eru kirkjur og 2fyrir1 pizzutilboð er leið vorra tíma til að skipta brauðinu.

Það er svo skrítið að það virðist vera sama hversu mikinn pening Íslendingar hafa á milli handanna, alltaf rennur hann í neysluna.

En hvað er ég að rífa kjaft? Ég tek þátt í þessu eins og hinir. Á þessum 5 mánuðum keypti ég mér bíl,opnaði síma og farsíma, internet, sjónvarp og Stöð 2, fór 10x í bíó, borðaði x-margar pizzur o.s.frv. Ég er heldur ekki á leið í pólitík með þessum pistli. Reyndar hélt ég að loksins væri að koma flokkur við mitt hæfi.

Flokkur aldraðra er sennilega minn vettvangur. Ég vona bara að þeir séu með ungliðahreyfingu!

Eftirmáli umferðarprófs!

Þá er ekkert annað að gera en að þakka þátttökuna í stöðubílprófinu. Þetta voru áhugaverðar niðurstöður og ljóst að „nær undantekningarlaust“ var túlkað á mismunandi hátt. Einungs einn lesandi fekk einkunnina 10 en flestir voru með 7. Fyrir utan þennan eina, sem reyndar er kvenkyns, geta því allir bætt sig.

Nú styttist í áramótin og flest okkar lofa sjálfum sér einhverju á þessum tímamótum: fara í megrun, henda kreditkortinu, fara á spænskunámskeið o.s.frv.

Ég skora á alla sem tóku þátt í prófinu að laga eitthvað eitt sem svarað var með „rangt“.

Rannsóknir sína að vilji maður koma markmiðum sínum í framkvæmd eigi maður fyrst að skrifa (kommentera) þau niður!

Góðar stundir!

Stöðubílpróf!

Þetta stöðupróf er mitt framlag til umferðarmála. Ég er þeirrar skoðun að vilji maður bæta umferðarmenninguna skuli maður byrja á sjálfum sér!
Vinsamlegast svarið spurningunum með rétt eða rangt. Fjöldi rétt-a er síðan ykkar einkunn á þessu stöðubílprófi.

 1. Ég ek nær undantekningarlaust innan löglegs hámarkshraða!
 2. Ég er alltaf „edrú“ undir stýri!
 3. Ég nota stefnuljós að staðaldri, líka þegar ég skipti um akrein!
 4. Ég gæti þess að farartækið sem ég ek sé í góðu ástandi!
 5. Ég ek með beltin spennt!
 6. Ég tala aldrei í farsíma (án handfrjáls búnaðar) þegar ég keyri!
 7. Ég reyni að vera tilllitssamur ökumaður. Skipti t.d. um akrein til að hleypa öðrum ökutækjum inn af aðrein!
 8. Ég tek tilllit til aðstæðna. Ek hægar í snjó og hálku og tek ekki framúr ef skyggni er lélegt!
 9. Ég virði reglur um framúrakstur!
 10. Ég er með bílpróf!

Nú væri gaman að sjá nokkar heiðarlegar niðurstöður!

Borat… snilld, skemmtun eða skömm?

Í afar ánægjulegri Akureyrarferð um helgina brá ég mér ásamt fylgdarliði á myndina Borat. Ég skemmti mér konunglega en varð þó fyrir dálitlum vonbrigðum. Væntingar mínar voru mjög háar eftir að hafa lesið eina gagnrýnina af annarri þar sem myndinni er lýst sem „stórvirki“ og „snilld“. Að auki fær hún yfirleitt fjórar eða fimm stjörnur og skipar sér þar með sess hjá myndum eins og Forrest Gump og A beautiful Mind.

Yndislegur aulahúmor

Í myndinni gengur Borad fram af viðmælendum sínum og áhorfendum hvað eftir annað á eftirminnilegan hátt. Settar eru upp aðstæður þar sem fólk verður mjög vandræðalegt og veit ekki hvernig það á að bregðast við. Svona lagað virkar alltaf (eins og efni sem tekið er með falinni myndavél). Þá eru óborganlegar kúkabrandarasenur eins og þegar Borad slæst við samferðamann sinn nakinn á hótelherbergi eða þegar hann býður upp á ost unninn úr móðurmjólk eiginkonu sinnar.

Engin ádeila

Einhverjir hafa bent á að styrkur myndarinnar sé þessi skemmtilega blanda af fyndni og ádeilu. Ég á í erfiðleikum með að sjá alvöru ádeilu í myndinni. Að vísu eru oft settar upp aðstæður þar sem illa upplýstir Ameríkumenn eru teknir í bakaríið. Það er hins vegar erfitt að greina í sundur hvað er leikið og hvað ekki. Síðan eru atriðin oft þannig saman klippt að það er ekki hægt að vita hvort eitthvað mikilvægt hafi verið tekið úr samhenginu. Því fer síðan fjarri að grín sé gert að gyðingum; miklu heldur er gert grín að gyðingafordómum.

Einhver boðskapur?

Borat er bráðfyndin dægrastytting sem skilur eftir í minningunni skemmtilegar senur sem lengi er hægt að hlæja að. Hún kynnir að vísu til sögunnar landið Kasakstan sem margir vissu líklega ekki að væri til. Myndin sem gefin er upp af þessu fyrrum Sovétlýðveldi er auðvitað alröng en það átta illa upplýstir áhorfendur sig sennilega ekki alltaf á. Þar að auki eru kjör íbúanna bág og því alls ekki viðeigandi að gera grín að þeim á einn eða annan hátt. Auðvitað koma einhverjir Kasakar til með að græða á þessu öllu saman. Kannski koma fleiri ferðamenn að leita uppi þetta þorp og íbúa þess en þá er verið að fá gesti á vitlausum forsendum inn í landið og það kann ekki góðri lukku að stýra.

Kannski væri áhugavert að setja sig í spor Kasaka? Hvernig væri t.d. íslenska útgáfan af Borat?

Harald the Wiking (Fordómar og ranghugmyndir um Ísland í sviga)

Harald the Wiking fer til Ameríku að hitta Bush vin sinn og styða hann í Íraksstríðinu (allir Íslendingar styðja Bush). Hann birtist með ísbjarnarhúna í skinnskjóðu og víkingahjálm á höfði (við erum ennþá á víkingastiginu). Skjóðan inniheldur líka þorramat (kannski eitthvað til í því) og selspik (íslenskt nammi). Með í för væri Helga sem væri einhvers konar blanda af ljóshærðri fegurðardrottningu að norðan og eskimóadóttur frá Kúlusúkk (Íslendingar eru eskimóar sem búa í snjóhúsum). Helga væri afar lauslát (Íslenskar stúlkur eru haldnar skyndikynnafíkn) og saman myndu hún og Harald the Wiking hitta kínverskættaða Ameríkanann og læknanemann John Lee. John þessi kæmi með þeim til Íslands til að hjálpa til við grimmúðlega hvalaslátrun þar sem menn yrðu að mönnum eftir að hafa baðað sig í hvalablóði og borðað hvalsaugu (Íslendingar eru á villimenn). John Lee og Helga myndu síðan ganga í hjónaband og eignast fjölda skáeygðra smávíkinga sem dræpu ketti sér til skemmtunar og borðuðu hundakjöt (Kínversk áhrif). Harald the Wiking myndi að lokum drekka sig til dauða (eitthvað til í því líka) og verða heygður skammt undan Snæfellsjökli þar sem geimverur halda verslunarmannahelgi hátíðlega á hverju ári (þetta gæti lokkað fleiri ferðamenn til landsins) .

Að öllu gríni (kannski dálítið misheppnuðu) slepptu, þá á kvikmyndaiðnaðurinn það ekki skilið að frábær og innihaldslaus afþreying eins og Borat sé meðhöndluð eins og meistaraverk.

Þá eiga Kasakar ekki skilið að svona röng og villandi umfjöllun um þá sé kölluð list og stórvirki.

Stæði okkur á sama?

Hver gagnrýnir gagnrýnendur?

„Ég les aldrei gagnrýni“, er setning sem ég hef oft heyrt frá starfsbræðrum mínum og systrum. Hvernig skyldi standa á því? Vissulega eru þeir margir sem eru viðkvæmir fyrir gagnrýni, hvort sem hún á nú rétt á sér eða ekki. Öðrum er alveg sama og svo eru ýmsir sem þykjast ekki lesa umfjöllun um sjálfa sig; lítillæti er dyggð. Flestir listamenn hafa þó sennilega einhvern tímann lent í gagnrýnanda sem var ósanngjarn, jafnvel kvikindislegur og þá eru þeir fáir sem láta sér þess háttar í léttu rúmi liggja. En hverjir er þessir gagnrýnendur?

Nokkrar tegundur gagnrýnenda

 • Sprenglærða gáfumennið skrifar yfirleitt um listir á þann hátt að hinn almenni borgari á í mestu vandræðum með að skilja innihaldið. Gagnrýnin er þá oft eins og „sjúrnal“ sjúklings sem einungis læknamenntað fólk getur skilið til fullnustu. Þessir gagnrýnendur líta líka oft á sig sem einhvers konar rithöfunda og getur gagnrýni þeirra meira minnt á blogg en umfjöllun. Glöggur lesandi veit kannski ekki mikið meira um tónlistarviðburðinn sem fram fór en áttar sig á að gagnrýnandinn vill nota tækifærið og sýna hvað hann sé klár penni og sniðugur.
 • Önnur tegund er gagnrýnandinn sem ekki hefur neina þekkingu á því listfagi sem hann er að skrifa um. Fyrir skömmu las ég í fréttablaðinu gagnrýni á sýningu Íslensku óperunnar á Skuggaleik. Gagnrýnandinn viðurkenndi að hafa ekkert vit á tónlist en treysti sér samt til að fjalla um tónlistarflutninginn og yfir höfuð að skrifa dóminn. Þessu mætti líkja við að íþróttafréttaritari skrifaði um viðskiptin í Kauphöllinni. Hann kæmist kannski að þeirri niðurstöðu að dollarinn væri í sókn og evran ætti við meiðsli að stríða. Annar gagnrýnandi skrifaði um lögin í Brottnáminu en ekki aríurnar og samsöngsatriðinn.
 • Vonsvikni listamaðurinn er mjög algeng tegund gagnrýnenda. Hann er búinn að reyna fyrir sér á listasviðinu en ekki haft erindi sem erfiði. Þessi tegund er mjög stygg og á það til að hnýta í flytjendur á ósmekklegan hátt. Þá er gagnrýnandi sem þessi oft mjög þreyttur á starfinu sem hann yfirfærir stundum á listamennina sem hann þarf að skrifa um (þetta var persónulegt skot).

En hvernig eiga gagnrýnendur að vinna vinnuna sína? Er hægt að ætlast til þess að þeir séu sanngjarnir og hlutlausir, alltaf í góðu skapi og „mátulega“ gagnrýnir?
Ég held að það sé ekki hægt að ætlast til neins af þessu ágæta fólki. Við þurfum hins vegar að skoða það hvernig við lesum gagnrýnina. Bæði listamenn og aðrir lesendur eiga einfaldlega að taka gagnrýnina eins og hún sannanlega er. Hún er einungis skoðun þess sem skrifar. Hún er enginn dómur; enginn sannleikur og ekkert viðmið.

Viðbrögð áheyrenda/áhorfenda eru mælikvarðinn á það hvort okkur hafi tekist vel til. Og hjá okkur söngvurunum er gott að hafa hafa besta söngkennara í heimi á tónleikunum. Hann er heiðarlegur og segir hlutlaust frá því hvernig við hljómuðum. Hann er ekki að flækja hlutina og hann kemur bara á tónleikana ef við viljum.

Hann er til í mörgum útgáfum og heitir upptökutæki.

Mýrin tók Börnin í Eddunni 5:1

Prúðbúnir hátíðargestir klöppuðu verðlaunahöfunum mismikið lof í lófa eins og við var að búast. Þó vorinu í íslenskri kvikmyndagerð sé lokið og komið fram yfir hvítasunnu verður að segjast að „fáir voru tilkallaðir og enn færri útvaldir“. Ekki eru margar kvikmyndir búnar til hér á landi á hverju ári en þó slæðast oftar en áður athyglisverðar myndir með. Ég er m.a.s. búinn að sjá tvær í haust sem báðar voru mjög góðar, Mýrina og Börn.

Persónulega hefði ég viljað sjá myndina Börn sem sigurvegara Edduhátíðarinnar. En af hverju? Í Dagblaðinu hafði einhver skrifað að líklega fengi Mýrin þessi verðlaun þar sem svo margir væru búnir að sjá hana! Þetta fannst mér sérkennileg röksemdarfærsla. MacDonalds væri þá líklega besta veitingahús í heimi og rigningin besta veðrið á Íslandi. Markaðslögmálið er ágætis afl í nútímasamfélaginu en það er ekki mælikvarði á gæði heldur vinsældir. Það hefði verið nær að reikna út hvaða mynd hefði fengið bestu aðsókn og veita síðan einhver vinsældaverðlaun. Edduverðlaunin eru auðvitað einhver vasaútgafa af óskarsverðlaununum og reyna stundum að líkjast þeim hræðilega mikið þó íslenskur töffaraskapur sé sjaldan langt undan. Ég óttast að kannski hafi markaðs- og vinsældasjónarmið ráðið för við verðlaunaafhendingu en ekki listræn gildi. En kannski er þetta bara bölvuð vitleysa í mér; þetta er sennilega bara spurning um smekk. Myndin Börn skildi einfaldlega meira eftir sig hjá mér en Mýrin og hlýtur því hjá mér fyrsta sætið.

Símakosningar eru eitt það hræðilegasta sem ég veit. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er sorglegasta dæmið um hvernig kosningar á þennan hátt geta eyðilagt gæði. Þau lög sem ná lengst í þeirri keppni koma frá löndum sem eiga mikið af fólki búsettu erlendis sem þá greiðir atkvæði (með greiddu símskeyti) fyrir sinn heimahaga. Við komumst því sennilega ALDREI upp úr undankeppninni sökum mannfæðar erlendis.

Balthasar Kormákur sagði í einni af þakkarræðum sínum á Edduverðlunahátíðnni í kvöld að hann væri þakklátastur þjóðinni fyrir að hafa farið á myndina sína. Þakklátari en fyrir að fá verðlaunin. Þetta fannst mér vel mælt hjá Balthasar. Mýrin var mynd sem þjóðin beið eftir. Uppáhaldsrithöfundur þjóðarinnar var loksins kominn á hvíta tjaldið. Eftirvæntingin var mikil. Niðurstaðan var framúrskarandi úrvinnsla og frábær afþreying. Þessi vinsæla mynd er að slá öll aðsóknarmet.

En er hún þar með sjálfkrafa sú besta?