Dagssafn: 27. nóvember, 06

Borat… snilld, skemmtun eða skömm?

Í afar ánægjulegri Akureyrarferð um helgina brá ég mér ásamt fylgdarliði á myndina Borat. Ég skemmti mér konunglega en varð þó fyrir dálitlum vonbrigðum. Væntingar mínar voru mjög háar eftir að hafa lesið eina gagnrýnina af annarri þar sem myndinni er lýst sem „stórvirki“ og „snilld“. Að auki fær hún yfirleitt fjórar eða fimm stjörnur og skipar sér þar með sess hjá myndum eins og Forrest Gump og A beautiful Mind.

Yndislegur aulahúmor

Í myndinni gengur Borad fram af viðmælendum sínum og áhorfendum hvað eftir annað á eftirminnilegan hátt. Settar eru upp aðstæður þar sem fólk verður mjög vandræðalegt og veit ekki hvernig það á að bregðast við. Svona lagað virkar alltaf (eins og efni sem tekið er með falinni myndavél). Þá eru óborganlegar kúkabrandarasenur eins og þegar Borad slæst við samferðamann sinn nakinn á hótelherbergi eða þegar hann býður upp á ost unninn úr móðurmjólk eiginkonu sinnar.

Engin ádeila

Einhverjir hafa bent á að styrkur myndarinnar sé þessi skemmtilega blanda af fyndni og ádeilu. Ég á í erfiðleikum með að sjá alvöru ádeilu í myndinni. Að vísu eru oft settar upp aðstæður þar sem illa upplýstir Ameríkumenn eru teknir í bakaríið. Það er hins vegar erfitt að greina í sundur hvað er leikið og hvað ekki. Síðan eru atriðin oft þannig saman klippt að það er ekki hægt að vita hvort eitthvað mikilvægt hafi verið tekið úr samhenginu. Því fer síðan fjarri að grín sé gert að gyðingum; miklu heldur er gert grín að gyðingafordómum.

Einhver boðskapur?

Borat er bráðfyndin dægrastytting sem skilur eftir í minningunni skemmtilegar senur sem lengi er hægt að hlæja að. Hún kynnir að vísu til sögunnar landið Kasakstan sem margir vissu líklega ekki að væri til. Myndin sem gefin er upp af þessu fyrrum Sovétlýðveldi er auðvitað alröng en það átta illa upplýstir áhorfendur sig sennilega ekki alltaf á. Þar að auki eru kjör íbúanna bág og því alls ekki viðeigandi að gera grín að þeim á einn eða annan hátt. Auðvitað koma einhverjir Kasakar til með að græða á þessu öllu saman. Kannski koma fleiri ferðamenn að leita uppi þetta þorp og íbúa þess en þá er verið að fá gesti á vitlausum forsendum inn í landið og það kann ekki góðri lukku að stýra.

Kannski væri áhugavert að setja sig í spor Kasaka? Hvernig væri t.d. íslenska útgáfan af Borat?

Harald the Wiking (Fordómar og ranghugmyndir um Ísland í sviga)

Harald the Wiking fer til Ameríku að hitta Bush vin sinn og styða hann í Íraksstríðinu (allir Íslendingar styðja Bush). Hann birtist með ísbjarnarhúna í skinnskjóðu og víkingahjálm á höfði (við erum ennþá á víkingastiginu). Skjóðan inniheldur líka þorramat (kannski eitthvað til í því) og selspik (íslenskt nammi). Með í för væri Helga sem væri einhvers konar blanda af ljóshærðri fegurðardrottningu að norðan og eskimóadóttur frá Kúlusúkk (Íslendingar eru eskimóar sem búa í snjóhúsum). Helga væri afar lauslát (Íslenskar stúlkur eru haldnar skyndikynnafíkn) og saman myndu hún og Harald the Wiking hitta kínverskættaða Ameríkanann og læknanemann John Lee. John þessi kæmi með þeim til Íslands til að hjálpa til við grimmúðlega hvalaslátrun þar sem menn yrðu að mönnum eftir að hafa baðað sig í hvalablóði og borðað hvalsaugu (Íslendingar eru á villimenn). John Lee og Helga myndu síðan ganga í hjónaband og eignast fjölda skáeygðra smávíkinga sem dræpu ketti sér til skemmtunar og borðuðu hundakjöt (Kínversk áhrif). Harald the Wiking myndi að lokum drekka sig til dauða (eitthvað til í því líka) og verða heygður skammt undan Snæfellsjökli þar sem geimverur halda verslunarmannahelgi hátíðlega á hverju ári (þetta gæti lokkað fleiri ferðamenn til landsins) .

Að öllu gríni (kannski dálítið misheppnuðu) slepptu, þá á kvikmyndaiðnaðurinn það ekki skilið að frábær og innihaldslaus afþreying eins og Borat sé meðhöndluð eins og meistaraverk.

Þá eiga Kasakar ekki skilið að svona röng og villandi umfjöllun um þá sé kölluð list og stórvirki.

Stæði okkur á sama?