Bloggið flutt „einu sinni enn“!!!

Það er svo erfitt að vera ekki eins og hinir.
Ég er því kominn með blog á MBL

http://bassontheroad.blog.is/

Jæja, sjáumst vonandi þar…..

A5F4FAB5D8CB181296CD671B423EF762

Það er dýrt að vera til… ó þó ekki alltaf!

Utan á hurðinni á íbúðinni sem ég dvel í hérna í Vínarborg hékk í gær poki með auglýsingapésum. Einn þeirra var frá versluninni SPAR. Ég var kominn að því að henda þessu í ruslið þegar ég rak augun í verðið á Puntigamer bjórdós: 59 cent.

Ég ákvað því að taka nokkrar „stikkprufur“ út úr þessum bæklingi. Hér koma þær:

Bjórdós (1/2 l) Puntigamer 0,59€   50 kr
Súkkuladi (100 gr) Milka 0,55€   46 kr
Snakk (170 gr) Pringles 1,19€   99 kr
Gúrka (1 stk)   0,39€   33 kr
Tómatar (1 kg)   0,99€   83 kr
Kjúkl. bringa/læri (1 kg) Huber 3,70€   316 kr

Þess ber auðvitað að geta að um tilboðsverð er að ræða. Ég er reyndar ekki alveg með íslenska verðlagið á hreinu en eitthvað segir mér að ég þurfi að hafa aðeins meiri pening í buddunni þegar þessar vörur eru keyptar á Fróni.

Bíóferð – á ensku eða þýsku?

Sú var tíðin fyrir mörgum árum síðan að ungur Íslendingur fluttist til Vínarborgar til að læra að syngja. Eftir 27 ára búsetu á Íslandi kom honum margt spánskt fyrir sjónir í heimsborginni við Dóná enda lítið sameignlegt með Garðskagavita og Stefánsdómi, samkomuhúsinu í Garðinum og Vínaróperunni hvað þá Miðnesheiðinni og Vínarskógi. Þessi ungi maður hafði lagt stund á þýskunám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og m.a.s. farið í stutta námsferð til Þýskalands. Þegar til Vínarborgar var komið varð honum ljóst að ýmislegt vantaði uppá í germönskunni til að hann gæti tjáð sig og skilið aðra. Til mikillar armæðu var allt sjónvarpsefni líka á þýsku. Þó samtalssenur í bandarískum bíómyndum séu ekki alltaf á mjög háu plani þá átti þessi ungi maður samt það erfitt með skiling að sú ánægja sem fylgir sjónvarpsglápi fór alveg fyrir bí. Þar að auki var vægast sagt hræðilegt að hlusta á stjörnur hvíta tjaldsins tala þýsku og það með allt annarri röddu en þeirra eigin.
Um síðir fór þó svo þetta vandamál var úr sögunni. Íslendingurinn bætti orðaforða sinn dag frá degi og eftir hálfan vetur tókst honum að horfa á flest allt sjónvarpsefni á afslappaðan hátt. Þar hjálpaði líka austurríski bjórinn sem rennur sérstaklega vel niður hálsinn þegar hlutstað er á þýskuna ilhýru (eða er það ylhýru eða ylhíru?). Þannig gerðist það líka síðar að söngnemandinn fór á talsettar myndir í bíó enda voru vinirnir stundum ekki þeir sleipustu í ensku (þeir höfðu enga Miðnesheiði greyin).

Nú eftir 13 ár á ég á margan hátt auðveldara með að skilja myndir ef þær eru talsettar á þýsku. Þar kemur líka til að þýska talsetning er mjög góð (ég þekki tvo talsetningarleikara í Berlin) og svo er málið vandað betur heldur en í „live“ upptöku í einhverri leikmyndinni í Hollywood.

Í kvöld ætla ég að sjá Ocean 13 ( Ozean dreizehn) og get ekki alveg ákveðið mig hvort ég eigi að sjá hana á þýsku (kl. 20:15) eða á ensku (kl. 21:15).

Hver þremillinn! Klukkan er orðin hálf níu svo ég verð víst að sjá hana á ensku.
Allt þessu gagnslausa bloggi að kenna!
Scheiße

Bjarni Brando í Brúðkaupi Fígarós!

Sex konur klæddu mig í og úr í heila tvo klukkutíma eftir hádegið í gær milli þess sem þær störðu á mig, ýmist standandi eða á hnjánum. Búningamátun er órjúfanlegur hluti af undirbúiningi fyrir sýningu og sé um nýja uppfærslu að ræða (eins og núna) þarf að taka margar mikilvægar ákvarðanir.

Á brjóstvasinn á jakkanum að vera alvöru eða bara þykistunni? Ein eða tvær tölur á jakkanum? Klof að aftan? Axlapúðar? Oftar en ekki er það síðan svo að leikstjórinn ákveður að maður sé kominn úr jakkanum áður en maður stígur inn á sviðið. En hvað um það, þetta er hluti af þessu ferli og sjálfsagt að taka það alvarlega. Mér finnst þetta svo sem ekkert leiðinlegt en það reynir samt á að horfa á sjálfan sig í fullri stærð, tvo klukkutíma í spegli. Ég mátaði tvenn jakkaföt í dag; önnur gráglansandi en hinn „beis“ hvít. Bæði með vesti og svo fæ ég hvíta skirtu og flott bindi við bæði fötin.

Venjulegast er lögfræðidoktorinn Bartolo bitur eldri maður, afkáralegur og skollóttur eða með barokkhárkollu. Þannig er það ekki í þetta skiptið. Uppfærslan gerist í nútímanum og útlitslega fyrirmyndin að perónu Bartolo er Marlon Brando. Ég fæ meira að segja að reykja vindla í sýningunni, klípa í kvenfólk, daðra og vera dónalegur. Danski leikstjórinn lagði höndina á öxlina á mér í gær og sagði: „Bjarni, reyndu að setja þig í spor Bartolo eins og hann er í uppfærslunni minni. Þar er hann einn af þessum eldri mönnum sem hefur gaman að sér töluvert yngri konum!

Ég verð vist að reyna að setja mig í hans spor.

Tuðandi þakklátur!

Stoltur, montinn, þakklátur, glaður, undrandi, snortinn, hlessa, feginn, kátur og jafnvel sjálfumglaður er ég með að hafa fengið Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin 2007 sem besti söngvarinn. Það eru auðvitað margir frábærir söngvarar á Íslandi en við sem tökum þátt í uppfærslum í heimalandinu komum ein til greina. Í þeim hópi voru frábærir söngvarar: Snorri, Finnur, Gunnar, Ágúst og svo auðvitað Hulda Björk sem líka fékk útnefninu (nú má enginn móðgast sem ég taldi ekki upp). Þessi staðreynd gerir heiður minn enn meiri . Mig langar líka til að þakka öllum þeim sem sent hafa mér hamingjuóskir; bæði með Kommentum og svo símleiðis.

En hvað um það, Feneyjarvist minni er brátt lokið. Ég flandra núna á milli Feneyja og Vínarborgar þar sem æfingar eru hafnar á brúðkaupi Fígarós. Eftir aðra sýninguna á Siegfried í gærkveldi tók ég næturlestina til Vínar. Eitthvað er nú minningin um að sofa í lest búin að brenglast því að mig minnti að það væri ekkert mál að lúlla í nokkra tíma, líðandi áfram á brautarteinum. Raunin í nótt var önnur. Kojan mín var hörð og mjó (kannski er ég bara orðinn eitthvað breiðari en síðast) og hitinn í klefanum var örugglega 30 gráður þegar við lögðum af stað. Klefafélagi minn, austurrískur stærðfræðingur, var mjög viðkunnarlegur þangað til hann sofnaði á bakinu og hraut eins og þrumuveður á styrjaldartímum. Mig langaði líka til að lesa örlítið en leslamparnir virkuðu ekki. Því lagðist ég til svefns og þegar ég loks festi blund kviknaði skyndilega á öllum leslömpunum í klefanum þannig að mér varð loks að ósk minni um að kíkja í bók. Ég svaf síðan slitrótt þangað til í morgum þegar við nálguðumst höfuðborg Austurríkis í hita og stækju. Ég á eftir að fara 3-5 svona ferðir á næstu dögum og nóttum. Amen.

Nú er komið nóg af þessu tuði. Síðasta vika mín í Feneyjum var yndisleg enda naut ég nærveru elskulegrar unnustu minnar og þá breytast túristastaðir eins og Feneyjar í rómantíska paradís.

Hér sit ég núna á kaffihúsi í Vín og drekk Melange. Ég bjó 18 ár í Garðinum, 3 ár í Keflavík, 6 ár á höfuðborgarsvæðinu og síðan 8 ár í Vínarborg. Mér líður því obbolítið eins og að vera kominn heim.

Na servas!

Frumsýning í kvöld!

Óperan Siegfried eftir Richard Wagner verður frumsýnd í dag (kvöld) í óperuhúsinu í Fenyjum. Ég syng þar orminn Fáfni og eftir að hafa verið drepinn um miðbik annars þáttar fæ ég að liggja dauður á sviðinu í rúman hálftíma. Félagi minn sem syngur dverginn Mími þarf ekki að liggja dauður nema í 10 mínútur. Hann drepst hins vegar með andlitið ofan í rjómatertu sem hann að vísu má ekki borða neitt því það er sjaldgæft að dauðar persónur megi hreyfa sig eitthvað. Verst er þó að lenda í ómögulegri stellingu þegar maður deyr á sviðinu og geta ekki lagað sig neitt til. Ég hef því tamið mér að deyja á mjög heimilslegan hátt og lenda í hálfgerðri sjónvarpssófastellingu. Það hefur gengið vel hingað til og tekst vonandi það líka á eftir.

Eins og venjulega á frumsýningardegi er ég fullur tilhlökkunar og dálítið spenntur. Það er þannig með þessi tiltölulega stuttu hlutverk eins og Fáfnir er, að söngvari er ekkert minna taugaveiklaður en annars. Ein sena í óperunni er um leið bara einn séns til að standa sig sem ekki má klúðra. Sé hlutverkið lengra er auðvelt að bæta upp fyrir t.d. lélega byrjun þegar líður á sýninguna. Ef mér tekst hins vegar ekki vel upp í senunni minni í kvöld þá verður erfitt að bæta fyrir það liggjandi dauður á sviðinu. Það er sama hvað ég sýni mikinn stórleik í hlutverki líkamsleifa; mitt tækifæri er búið.

Það er auðvitað engin ástæða til að ætla að illa fari. Ég reyni mitt besta.

Hér fylgir tengill á heimasíðu óperuhússins:

http://www.teatrolafenice.it/

Uppkast fyrir sýningu!

Tenorinn var byrjaður að kúgast, enda ekki nema tvær mínútur þangað til hann átti að fara á sviðið.
– „Þetta verður allt í lagi“, sagði ég meira af vana en meðaumkun. Á óperusviðinu er þessi huggulegi söngvari ekki aðeins þekktur fyrir að syngja vel heldur þykir hann líka með betri leikurum. Á hliðarsviðinu er hann hins vegar frægur fyrir það hvað hann er ofsalega taugaóstyrkur rétt áður en hann á að fara inn á sviðið.
– „Ég get ekki sungið í kvöld“, sagði sá huggulegi og leit til mín. Þrátt fyrir allt meikið sá ég að hann var orðinn grænn í framan. Það var rúm mínúta í að við ættum að labba saman á sviðið, glaðhlakkalegir og léttir á fæti.
– „Það styttist í ykkur!“, sagði sviðstjórinn og reyndi að brosa hughreystandi.
Meira þurfti ekki til. Tenórinn hljóp fram á gang og þrátt fyrir að hann næði að loka á eftir sér þá bárust æluhljóðin til okkar í gegnum hurðina.
– „Það mátti ekki tæpara standa“, sagði sviðsstjórinn og var greinilega létt.“Tilbúnir!“
Tenorinn kom hlaupandi inn aftur, þurrkandi framan úr sér með handklæði. Hann henti því í sviðstjórann og við stukkum saman á sviðið hlæjandi og kátir.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem kollegi minn þurfti að æla rétt áður en við áttum að fara á sviðið og þetta var sennilega ekki í það síðasta. Hins vegar var þetta fyrsta sýningin með nýja austurríska sópraninum. Hún hafði alveg fallið fyrir daðrinu í honum á æfingunum og ég vissi að hann myndi notfæra sér það í ástarsenunni sem hæfist þegar ég færi af sviðinu. Hún hafði enga hugmynd um hvað hann hafði verið að gera rétt áður en hann fór á sviðið og þegar þau kysstust myndi hann reka tunguna upp í hana eins langt og hann gæti.
Verði henni að góðu!

Flær á ferð og flugi!

Þessi er stolin, en dagsönn!

Tvær voru flær sem oft skelltu sér saman í óperuna. Þegar frumsýna átti Tristan og Isolde mættu þær báðar í andyrri óperuhússins rétt fyrir sýningu.
– „Við sjáumst síðan á morgun“, sagði önnur flóin áður en leiðir skyldu og sýning hófst.
Daginn eftir hittust þær á hárgreiðslustofu og báru saman bækur sínar.
– „Hvernig fannst þér?“, spurði önnur.
– „Þetta var frábær sýning“, svaraði hin. „Sópransöngkonan hefur aldrei verið betri og mér fannst uppfærslan líka skemmtileg. Ég var svo heppin að fá stæði í hárkollu á gamalli konu á 4. bekk. Frábær staðsetning!“
– „Iss, það er nú ekki mikið!“, sagði sú fyrsta „Ég var í skeggi hljómsveitarstjórans. Hljómburðurinn þar var vægast sagt frábær og svo sá ég öll smáatriði hjá söngvurunum. Hreint út sagt, stórkostlegt!“
– „Hvernig fannst þér lokasenan?“
– „Ég missti nú eiginlega af henni. Þannig var að í miðjum öðrum þætti þurfti hljómsveitarstjórinn að hnerra og við það kastaðist ég á loft og flaug yfir hljómsveitargryfjuna.Ég lenti síðan í hálsmálinu á sópraninum, rann niður milli brjóstanna á henni og eitthvað niður eftir líkamanum.“
– „Þú varst heppin að sleppa lifandi!“
– „Já, ég rotaðist rétt eftir lendinguna. Það skrítna er að í morgun þegar ég vaknaði, þá var ég aftur stödd í skegginu á hljómsveitastjóranum!“

Af karnívalgrímum og öðrum grímum!

Örlítið af mér…

Enn á ný hefur vinnan dregið mig af stað út í heim. Núna er ég staddur í Feneyjum að syngja risann Fáfni sem í þetta sinn stjórnar gröfu og reynir að gera útaf við Sigurð Fáfnisbana með skóflunni. En Sigurður heitir ekki Fáfnisbani fyrir ekki neitt. Hann rekur spjót í hjarta Fáfnis svo að vinnugallinn atast allur út í blóði í bland við drullu og smurolíu. Ef Fáfnir hefði náð að drepa Sigurð, héti hann sennilega Fáfnir Sigurðarbani og Hringur Wagners væri bara 6 klukkutíma langur en ekki 14. Þetta er samt allt hið besta mál. Meðsöngvararnir eru frábærir og mér sýnist uppfærslan hin ágætasta.

Feneyjar eru eins og allir vita sundurskornar af síkjum. Oft er því fljótasti ferðamáttinn á milli staða í borginni sjóleiðin þar sem ekki eru neinir bílar og hjól eru ekki leyfileg. Það er líka oft stutt að ganga en það er þrennt sem setur þar strik í reikninginn. Í fyrsta lagi eru allar götur fullar af ferðamönnum. Þeir eru flestir hverjir ekkert að flýta sér og standa gjarnan saman í hóp. Þetta hægir á allri gangandi umferð en það er ekki við ferðamennina að sakast. Þeir eru hingað komnir til að skoða en ekki taka þátt í einhverjum ratleik. Í öðru lagi er mjög auðvelt að villast hérna. Ég var hálfan klukkutíma að finna aftur skammtímaleiguíbúðina mína fyrsta daginn minn. Ég mundi bara að það var pizzería í nágrenninu ásamt búð sem selur karnívalgrímur og svo var þetta líka stutt frá almenningssalerni sem greiða þarf fyrir notkun. Þetta hafðist þó fyrir rest; annars sæti ég ekki hér að skrifa þetta annars tilgangslausa blogg. Í þriðja lagi eru „göturnar“ eða göngustígarnir mjög þröngir. Sá þrengsti er þannig að ekki gæti ég mætt sjálfum mér á honum; annar okkar hefði þurft að bakka til baka og hleypa hinum fyrst í gegn.

En það eru ekki bara karnívalgrímur sem gleðja mig þessa dagana. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera tilnefndur til Grímunnar – íslensku leiklistarverðlaunanna 2007 sem söngvari ársins fyrir hlutverk mitt í Brottnáminu í óperunni s.l. haust. Þetta er mikill heiður fyrir mig og um leið heiður fyrir þessa uppfærslu sem svo sannarlega á allt gott skilið. Verðlaunin verða síðan afhent 15. júni í íslensku óperunni og verður herlegheitunum sjónvarpað beint. Ég verð fjarri góðu gamni; sennilega villtur og fótalúinn í Feneyjum að troðast í gegnum túristahjarðir eða fastur í húsasundi.

Samtal við stjörnu, skýjum ofar

Based on a true story

Þetta var á námsárunum mínum. Ég hafði verið í nokkurra daga fríi á Íslandi og var nú á leiðinni aftur til Vínarborgar. Þar sem ekki var um neitt beint flug að ræða þurfti ég að skipta um vél í Kaupmannahöfn. Á vélinni frá Keflavík tók ég eftir því að ein skærasta stjarnan meðal íslenskra óperusöngvara var líka um borð; að vísu ekki á almennu farrými eins og ég heldur á Saga class. Gott uppeldi mitt varð til þess að ég ákvað að láta stjörnuna í friði jafnvel þó mig langaði heilmikið til að kynnast henni. Við vorum jú næstum því starfsbræður þó svo að ég væri að stíga mín fyrstu skerf en hann löngu búinn að ganga á öllum stærstu óperusviðum heimsins. Alla leiðina var ég samt að gjóa augunum fram í Saga Class og sjá hvort ég kæmi ekki auga á hann og af og til heyrði ég hressilegan hlátur berast aftur eftir vélinni sem sennilega kom úr þessum „óskabarka“ íslensku þjóðarinnar.
Loks lentum við í Kaupmannahöfn og eftir að hafa snarað í mig danskri pylsu á Kastrup hélt ég í áttina að seinni flugvélinni minni þann daginn sem flaug leiðina frá Kaupmannahöfn til Vínarborgar. Ég er rétt kominn inn í vélina þegar ég rek augun í stjörnuna mína, sitjandi í næstfrestu röð, auðvitað á viðskiptafarrými. Ég tók mig saman í andlitinu, rétti fram höndina og kynnti mig.
„Já blessaður“ svaraði stjörnusöngvarinn og tók hlýlega í höndina á mér. „Ertu líka á leið til Vínar?“ spurði hann mig með norðlenskum hreim.
„Jú, ég er að klára söngnámið í vor“ svaraði ég hálf skömmustulegur.
„Heyrðu, það væri gaman að spjalla við þig.“ sagði stjörnusöngvarinn. „Viltu ekki koma fram í vél þegar hún er komin á loft og ræða málin?“
„Geri það“ svaraði ég glaður með að hafa fengið þessar móttökur.
Þegar vélin var komin á loft og sætisbeltaljós höfðu verið slökkt, stóð ég á fætur, gekk fram í viðskiptafarrými og settist við hliðina á stjörnunni, sem reyndar er töluvert lágvaxnari en ég, líka í sæti.
„Hvernig ertu í honum?“ spurði hann mig og ýtti í magann á mér.
„Bara góður“ svaraði ég en ákvað að vera ekkert að pota til baka í stjörnuna. Við ræddum síðan hitt og þetta og m.a. komst ég að því að hann væri að fara að syngja í Ríkisóperunni í Vín.
Eftir stutta stund kom yfirflugfreyjan til mín og spurði hvort ég væri í réttu sæti.
Ég svaraði því til að ég væri auðvitað í vitlausu farrými en langaði til að tala við landa minn um stund. Ég myndi síðan setjast aftur í mitt sæti áður en að maturinn væri borinn fram.
Flugfreyjan tjáði mér þá að „því miður“ væri það stefna flugfélagsins að láta farþega sitja í réttu farrými alla leiðina.
Í þessum töluðu orðum hallaði stjarnan sér upp að mér og sagði glottandi:
„Hún er nú ekki búin að fá það lengi, þessi!“