Ef þú heitir Hanna skaltu ekki lesa þessa frásögn!

„Blessaður, og takk fyrir síðast!“ sagði brosmildur bariton við mig á æfinu einn daginn.
„Blessaður“ sagði ég og brosti á móti en gat ómögulega komið því fyrir mig hvar ég hafði séð þennan súkkulaðibrúna söngvara áður.
„Þú er bara kominn í stóru rullurnar?“ spurði hann mig með of miklum undrunartón; eins og ég hefði ekkert með stór hlutverk að gera.
„Jú, jú.“ svaraði ég um leið og ég reyndi að muna hvaðan ég þekkti þetta vöðvabúnt. „Hvað er annars að frétta af þér?“
„Við Hanna erum búin að gifta okkur!“ svaraði hann brosandi og sýndi mér gylltan giftingarhring á kaffibrúnum baugfingrinum.
„Til hamingju!“ sagði ég ekki bara til hans heldur líka til mín sem loksins var að fá minnið aftur.
„Hanna er ólétt!“ hélt hann áfram um leið og hann leit á afturhluta stúlkunnar úr búningadeildinni sem gekk fram hjá okkur í þessu. „Kominn 7 mánuði á leið!“
„Frábært! Kom hún með þér?“ spurði ég og fylgdi augnaráði hans eftir, bara svona fyrir kurteisissakir.
„Nei, hún treysti sér ekki í flugið“, svaraði hann. „Ég er bara einn á ferð! Eins og á sumarhátíðinni um árið!“
Lokins áttaði ég mig alveg á manninum. Við höfðum sungið saman nokkrum árum áður á óperuhátíð þar sem sýningarnar fóru fram undir berum himni. Þar hafði ég kynnst honum og unnustu hans, Hönnu. En ég mundi líka eftir öðru.
Allir söngvararnir höfðu sungið með litla hljóðnema í hársverðinum til þess að það heyrðist í þeim fram í öftustu röð. Hljóðnemarnir voru tengdir við senda sem við bárum undir belti og sendu allt sem við sungum og sögðum í lítið hljóðver sem síðan kveikti og slökkti á okkur eftir því hvort við vorum á sviðinu eða ekki. Á einni af lokaæfingunum fannst baritóninn ekki þegar hann átti að fara á sviðið. Það var því brugðið á það ráð að kveikja á sendinum hans til að finna út hvar hann væri.
Við fengum aldrei að vita hvar hann var en af hljóðunum að dæma sem bárust um hátala hljóðkerfisins var ljóst að hann var að gera eitthvað allt annað en að hita röddina upp fyrir æfinuna. Strákarnir í hljóðdeildinni slökktu auðvitað strax á stununum og öskrunum en hleruðu í hvelli alla aðra senda til að finna út hver ætti hina röddina sem borist hafði með í kerfið.
Feimin og hlédræg pólsk sópransöngkona átti hinn hljóðnemann. Hún heitir ekki Hanna!

Fljótandi tilhlökkunarefni!

„Ég get ekki sagt að ég hlakki til“ sagði fyrrum skólasystir mín sem sat andspænis mér á kaffistofu óperuhússins.
„Hvað meinarðu?“ spurði ég um leið og ég velti því fyrir mér hvers vegna þessi fyrrum fegurðardrotting væri komin með svona mikið af hrukkum, langt fyrir aldur fram. „Þú ert nú ein besta Travíatan í bransanum í dag!“
„Jú, jú“ sagði hún brosandi svo að enn fleiri hrukkur bættust í hópinn.
„Þetta hlutverk er líka eins og skrifað fyrir þig!“ sagði ég og vonaði að hún miskildi mig ekki.
Traviata er reyndar ein frægasta gleðikona óperubókmenntanna, en það var ekki það sem ég meinti eða vildi meina, heldur að rödd og leikhæfileikar vinkonu minnar nytu sín vel í þessu hlutverki.
„Ég er Traviata. Traviata er ég!“ sagði hún og horfði yfir kaffistofuna eins og hún væri að bíða eftir að allir stæðu á fætur og byrjuðu að klappa!
Vissulega er orðspor þessarar vinkonu minnar ekki fallegt. Hún á að hafa komist í gegnum margar áheyrnarprufur og fengið mörg hlutverkin út á allt annað en að vera góð söngkona. Margir hljómsveitarstjórar eiga að hafa verið með fleira á lofti en tónsprotann þegar hún er annars vegar og margir leikstjórarnir hafa víst hrifist meira af tilburðum hennar í rúminu en á sviðinu. Kannski voru tíðar lostageiflur og grettur skýringin á öllum þessum hrukkum.
„Af hverju hlakkar þú ekki til?“ spurði ég.
„Mér finnst ekki gaman að syngja með Carlo!“ svaraði hún og meinti snaggaralegan tenór frá Perú átti að syngja Alfredo elskhuga hennar þetta kvöldið!
„Carlo er fínn söngvari!“, sagði ég undrandi. „Mér finnst hann líka mjög sannfærandi í þessum elskhugahlutverkum!“
„Jú, jú“ játti hún. „Hann frussar bara svo mikið framan í mig þegar hann syngur!“
Ég sá fyrir mér sveittan tenorinn frussa framan í vinkonu mína í öðrum þætti þegar hann segir henni til syndanna!

Það er kannski fínt að hún er svona hrukkótt. Munnvatnið úr tenornum rennur þá síður niður andlitið hennar og eyðileggur meiköppið!

Dans á rúmenskum rósum!

Önnur saga fyrir nýja lesendahópinn:

„Hefuðu sofið hjá balletdansara?“ spurði síðhærði aðstoðarmaðurinn í leikmunadeildinni mig um leið og hann rétti mér beyglað sverð sem sennilega var búið að taka þátt í fleiri sýningum en allir söngvarar kvöldsins samanlagt.
„Nei, aldrei!“ svaraði ég og var fljótur að fara yfir „listann“. „Þú meinar kvenkyns balletdönsurum, er það ekki?“
„Alveg eins.“ svaraði þessi sérkennilegi strákur sem alltaf nær að koma mér úr jafnvægi rétt áður en ég á að fara á sviðið. „Ég lúllaði hjá henni um daginn“ hélt hann áfram og benti með gervikyndli á rúmensku balletdansmærina hinum megin við sviðið sem lá á gólfinu eins og það væri búið að brjóta hana saman.
„Með henni?“ spurði ég undrandi „Já en hún er ekki nema hálfur annar metri á hæð og örugglega ekki meira en 30 kg.“
„Hún er rosalega liðug! Við prófuðum ótrúlegar stellingar“ sagði hann og rétti mér líka kyndilinn til að geta sýnt mér með höndunum hvernig hún hafði flækt fótleggjunum utan um hann eins og þegar könguló pakkar inn dauðvona húsflugu.
„Svo setti hún aðra löppina aftur fyrir háls“ hélt hann áfram og settist á gólfið til að reyna að sýna mér fáfróðum óperusöngvaranum hvað hann ætti við.
Ég sparkaði kannski óeðlilega fast í hann þegar mér var litið yfir sviðið og sá rúmensku ballettdansmærina horfa á okkur með drápslegu augnaráði eins og einræðisherra frá Austur-Evrópu væri á ferð.
„Hún er að fylgjst með þér“ hvíslaði ég til hans og brosti mínu fegursta yfir sviðið eins og ekkert hefði átt sér stað.
„Inn á svið!“ var kallað til mín af sýningarstjóranum. Ég rétti vini mínum kyndilinn og stökk inn á sviðið.
Hugsandi um rúmenska balletdansmær dansandi upp í rúmi reiddi ég sverðið á loft og bjóst til kljúfa tenorinn í herðar niður og ljúka þar með óperunni.
Þá loksins áttaði ég mig á því að ég hafði hent sverðinu í sviðsmanninn og stóð nú með gervikyndil í hægri hendinni.
Tenórinn dó þetta kvöld sem önnur. En núna úr hlátri.

Ljósblá saga úr óperuheiminum!

Ellý nokkur Ármanns bloggar á hverjum degi á ellyarmanns.blog.is. Lesendur hennar eru mörg þúsund á dag enda er viðfangsefnið „djarfar (uppfundnar) reynslusögur“ vinkvenna hennar. Sögurnar eru mjög skemmtilegar og þó ég kíki inn annað veifið geri ég ráð fyrir að lesendur síðunnar séu fyrst og fremst konur á öllum aldri sem nægir greinilega ekki að horfa á góðan fótboltaleik til að fá útrás fyrir ónýttu orkuna sem verður til þegar hversdagsleikinn er ekki nógu gefandi.

Þar sem ég er þjófóttur á góðar hugmyndir ákvað ég að skrifa eina svona „ellýármanns“ sögu úr óperuheiminum og setja hana á bloggið mitt. Með því er ég auðvitað að reyna að fjölga lesendum síðunnar svo þeir verði kannski einhvern tímann hundrað eða fleiri á dag. (Söngvarar þurfa athygli, sama hver hún er).

Hér er meistaraverkið:

„Það gerist á hverri einustu sýningu“ sagði tenórsöngvarinn, vinur minn sem leitar gjarnan til mín þegar eitthvað bjátar á.
„Ertu ekki að grínast?“ svaraði ég og átti erfitt með að fara ekki að brosa. „Og hvernig tekst þér að komast í gegnum sýninguna?“
„Þetta hefur engin áhrif á röddina en ég á bara erfitt með ganga eðlilega niður sviðið þegar dúettinn er búinn!“ svaraði vinur minn og leit í kringum sig alveg eins og hann væri að ganga úr skugga um að enginn væri að fylgjast með okkur.
„Hefur hún orðið vör við þetta?“ spurði ég og meinti brjóstgóðu kanadísku sópransöngkonuna sem syngur umræddan dúett með vini mínum á hverri sýningu.
„Auðvitað! Ég stend þétt upp við bakhlutann á henni!“ svaraði tenorinn sem var orðinn jafnrauður í framan og hann verður þegar hann syngur háa séið.
Ég gat ekki still mig um að hlæja. Þetta hafði aldrei komið fyrir mig og er ég þó búinn að standa á sviði mun lengur en vinur minn. En að manni standi á sviði. Það hafði ég aldrei heyrt um.
„En það er eitt sem ég skil ekki!“ spurði ég. „Þú ert löngu kominn út úr skápnum og færð svo bara bóner þegar þú nuddast aftan í konu sem gæti verið mamma þín?“
„Ég fæ ekki standpínu út af henni!“, svaraði vinur minn glottandi. „Það er tónlistin í dúettinum sem setur allt í gang!“

Kosningaspá!

Ég vaknaði í morgun og ákvað að koma með kosningaspá.

Hún byggir á

  • 29 einingum í stjórnmálafræði sem ég tók fyrir 26 árum síðan
  • heppni en ég vann hæsta vinninginn í happdrætti SÍBS, sem drengur. Reyndar fylgdi óheppni í kjölfarið því verðbólgan borðaði vinninginn minn næstu ár á eftir.
  • tilfinningingu minni
  • þörf minni fyrir að hafa eitthvað til málanna að leggja

Úrslit alþingiskosninganna 2007 (spá)

  • Framsóknaflokkurinn – 13%
  • Sjálfstæðisflokkurinn – 37%
  • Frjálslyndir – 7%
  • Íslandshreyfingin – 3%
  • Samfylkingin – 25%
  • Vinstri grænir – 15%

Ég vona að ég fái nokkur atvinnutilboð þegar talið hefur verið upp úr kjörkössunum.

Að baða sig í frægðinni!

Heimsókn í heita pottinn er fastur liður þegar ég fer í sund. Ég og Þorkell Logi, æskufélagi minn, ákváðum einn veturinn að mæta í sund á hverjum degi áður en kennsla hæfist í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þetta var fyrir mörgum árum síðan. Við syntum vel fyrstu vikuna og skelltum okkur svo í pottinn á eftir. Nokkrum vikum síðar gengum við framhjá sundlauginni á morgni hverjum og skelltum okkur beint í heita vatnið til að koma blóðrásinni af stað áður en námsefni dagsins var innbyrt.

Í gær mætti ég í sundið aftur, að vísu í Hafnarfirði, en sundferðir mínar eru orðnar að árvissum viðburði í seinni tíð. Minnugur sundferðanna forðum settist ég beint í heita pottinn, þó með þann vilja í farteskinu að synda eina eða tvær ferðir seinna. Nokkru síðar kemur maður í pottinn, á mínum aldri, og sest mér við hlið. Honum er starsýnt á mig og spyr loks hvort við þekkjumst ekki?

Ég, vitandi hvaðan hann þekkir mig: „Það getur meira en verið, ég er ekki svo mannglöggur!
Hann: „Mér finnst ég kannast við þig. Kannast þú ekki líka við mig?
Ég, hugsandi að auðvitað hafi hann bara séð mig í sjónvarpinu eða blöðunum, frægan bassasöngvarann: „Mér finnst ég hafa séð þig áður, er samt ekki alveg viss.
Hann: „Ertu rafeindavirki eða eitthvað í rafmagninu?
Ég, veltandi því fyrir mér hvort ég eigi að koma með brandarann um að ég selji heitt loft. Nei, ekki núna. „Nei ég er ekkert í rafmagninu.
Hann: „Hvað ertu gamall, ég er fertugur?
Ég, minnugur þess að ég er nýorðinn það líka, svara með brosgrettu fremur en brosi: „Jú, ég er víst líka fertugur.
Hann: „Hvar varstu í skóla?
Ég hugsa langt, langt, langt til baka: „Fjölbraut Keflavík.
Hann: „Heyrðu, ég á skyldmenni í Keflavík!
Ég, ekki vitandi hvort þetta séu góðar eða slæmar fréttir: „Já, nei ég er ekki ættaður þaðan
Hann: „Ókei.Hvað gerirðu?
Ég hugsa hvor ég eigi núna að segja heitaloftsbrandarann. Nei aftur. „Ég er tónlistarmaður!
Hann: „Heyrðu! Ertu í hljómsveit? Ég hef verið að setja upp græur fyrir böll og svoleiðis.
Ég veltandi því fyrir mér hvort ég eigi að segja að ég sé óperusöngvari. „Ég er í klassík. Ég heiti Bjarni Thor„, og ég rétti honum höndina. Núna hlýtur hann að fatta þetta!
Hann, án þess að hafa kveikt á fattaranum: „Blessaður„, og svo kynnir hann sig. Ég er núna búinn að gleyma nafninu á honum (dæmigert).

Í stað þess að kynna mig betur og segja honum hvað ég sé frægur; að ég hafi komið fram í útvarpi og sjónvarpi; sungið í Óperunni og Þjóðleikhúsinu og veitt sennilega 10 viðtöl í Mogganum, þá ákvað ég að skella mér í laugina og synda nokkrar ferðir.

Boðskapur sögunnar: Hann er enginn… eða hvað?

2. maí 2007 – Afmælisfærsla

Þetta er afmælisfærsla. Ég er fertugur í dag. Ég hoppaði yfir það í huganum í gær hvernig síðustu „stórafmæli“ hafa verið (35, 30, 25 og 20). Man reyndar lítið eftir einhverjum veislum en komst að því að líf mitt hefur alltaf tekið miklum stakkaskiptum á þessum fimm ára köflum, bæði prívat- og atvinnulega séð.

Það verður líka erfitt að muna eftir afmælisveislunni í þetta sinnið því hún verður ekki haldin. Hins vegar langar mig að skála við kunningja, vini og vandamenn á „Næsta bar“, gegnt óperunni, á föstudagskvöldið (4.5.) kl. 22. Öllum sem mig þekkja er velkomið að mæta en gestum verður boðið upp á nákvæmlega ekki neitt. Ég tek heldur ekki á móti neinum afmælisgjöfum enda bý ég um þessar mundir hálfpartinn í ferðatösku.

Engu að síður myndi það gleðja mitt gamla hjarta að sjá sem flesta og skiptast á faðmlögum, brosum og kossum.

Kannski að bloggið mitt fari batnandi með meiri reynslu og þroska…. og fleiri árum.

Í kóngsins Kaupmannahöfn!

Á leið heim á Klakann dvel ég nú dagstund í Kaupmannahöfn. Þar sem ég lenti um hádegisbil og brottför er ekki fyrr en eftir kvöldmat, var tilvalið að ganga um danskar götur og stræti og kynnast gömlu herraþjóðinni á heimavelli. Ég hef oft og mörgum sinnum flogið um Kastrup en sennilega aðeins tvisvar komið til Kaupmannahafnar og haft þá stutta viðdvöl í bæði skiptin.
Ýmislegt vakti athygli mína og ætla ég hér að koma athugasemdum mínum á tölvutækt form áður en Ísland hellist yfir mig síðar í kvöld.

  1. Eftir 9 vikur á Spáni áttaði ég mig á því að ég er enginn risi. Skandinavar eru einfaldlega stærri en Suður-Evrópubúar. (Þetta eru reyndar ekki ný vísindi). Flugfélagið Spanair gerir hins vegar ekki ráð fyrir því að farþegar þess séu stærri en Maradonna (á lengdina, þ.e.a.s. hærri) Önnur eins fótaþrengsli hef ég aldrei upplifað. Ég reyndi að setjast í sæti 26E en kom neðri hlutanum einfaldlega ekki niður í sætið þar sem hnén sátu föst í næstu sætaröð. Því fór að ég sat í sætum 27A og 27B, þ.e.a.s. efri-hluti líkama míns var í 27A og sá neðri í 27B.
  2. Norðmenn eru frændur okkar, en það eru Danir ekki. Þetta var ég búinn að lesa í einhverri erfðarannsókn. Við höfum allt önnur gen en þeir og er ég þá að tala um þá Dani sem af dönsku bergi eru brotnir (þetta er auðvitað ekki besta líkingamálið út frá jarðfræðilegu sjónarmiði).
  3. „Innrás“ íslenskra fyrirtækja var mér ekki mjög sýnileg. Að vísu rak ég augun í auglýsingu frá Glitni og sá skrifstofu Icelandair á „Strikinu“ en meira var það nú ekki.
  4. Nokkrar götur heita í höfuðið á íslenskum stöðum og persónum. „Egilsgade, Bergthorasgade, Njalsgade, Strulasgade, Vestamannagade og Reykjaviksgade“, svo nokkrar séu nefndar. Á kortinu sem ég sá þetta virðist hverfið heita „Islandsbrygge“. Þarf ég að skammst mín fyrir að hafa ekki vitað þetta?
  5. Eitthvað var ég búinn að heyra af „ókeypisblaðastríði“ í Danmörku og þar er víst íslenskt fyrirtæki með í baráttunni. Ekki veit ég hvaða blað var það íslenska en ég fletti nokkrum í lestinni á leið upp á flugvöll. Ég er hins vegar mjög hrifinn af stærðinni eða brotinu. Þessi blöð er hægt að lesa í rútum, lestum eða flugvélum án þess þess þó að sessunauturinn fái á tilfinninguna að maður sé að reyna að fela hann.
  6. Á göngu minni framhjá Tivoli komst ég að því að það til fólk sem borgar fyrir það að fá að öskra. Þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir en ég fæ einmitt borgað fyrir að öskra. Eitt skemmtitækið í útjarði skemmtigarðsins reyndi með miðflóttaaflinu að fleygja líffærum gesta sinna á hafsauga á meðan líkamar þeirra voru fast bundnir í sætum tækisins. Þessi „geimskotsupplifun“ er sennilega svo stórkostleg að maður finnur sig knúinn til þess að öskra, án þess þó að fá borgað fyrir það.

Nú læt ég staðar numið. Hins vegar er óhjákvæmilegt að ég bendi á að viðbrögðin við síðustu færslu minni hafa verið heldur lítil. Ég skil samt skilaboðinn. Ég á greinilega að búa í útlöndum áfram.

😉

Einhverstaðar verða vondir að vera!

Eins og flestum lesendum þessarar síðu er kunnugt hafa fjölskyldumál mín tekið breytingum nú í vetur.

Í framhaldi af því er ég að leita að leiguíbúð á höfuðborgarsvæðinu og ákvað því að misnota bloggið til að auglýsa það.

Reyndar bý ég starfs míns vegna hálft árið á einhverjum hótelum eða í skammtímaleigu en einhvers staðar verður maður að eiga sitt heimili. Þ.a.a. er ég ekki einn á ferð…..

Kannski „á einhver/veit einhver um“ íbúð í Rvík og nágrenni, a.m.k. 3ja herbergja til leigu frá og með sumrinu/haustinu 2007? Leiguverð á Íslandi hefur hækkað mikið á síðustu árum samfara hækkandi húsnæðisverði og ekki hlaupið að komast í gott húsnæði á sanngjörnu verði.

Ef þið getið hjálpað þá er netfangið mitt

bjarnibass@t-online.de

Fyrir þá sem nenntu að lesa þetta er hér stutt spaug í lokin:
Hvað er grænt, en verður rautt þegar ýtt er á takkann?

Svar:(Lesist afturábak) rexim í ruksorf

Páska(tuð)spjallið!

Í þessu páskaspjalli mínu langar mig að víkja orðum mínum að listgrein sem nú er í útrýmingarhættu. Óperuflutningur er fyrirbæri sem brátt mun heyra sögunni til. Þeir sem ánetjast óperutónlist eru snobbaðir, gamaldags sérvitringar sem ekki er mark takandi á. Þeir sem flytja hana eru þeim mun verri; egócentrískir aumingar (nenna ekki að „vinna“) sem halda því fram að þeir eigi að fá borgað fyrir það sem allir geta gert, a.m.k. í sturtu eða undir áhrifum áfengis.Í gær sá þann annars þann ágæta spurningaþátt „Meistarinn“ á Stöð 2. Þar áttust við Karl Pétur Jónsson og Katrín Jakobsdóttir og stjórn þáttarins var í höndum hins fjölhæfa Loga Bergmanns Eiðssonar. Ég dáðist að báðum þátttakendum. Þau virtust bæði geta svarað spurningum um líðandu stund svo og hitt og þetta merkilegt eins og hver ætti hina og þessa bloggsíðuna. (það var reyndar ekki spurt um mína bloggsíðu, sennilega of auðvelt). Þegar komið var að valflokkum kenndi ýmissa grasa og m.a. var hægt að velja flokkinn „óperur“. Ég vonaði að þessi flokkur yrði fyrir valinu og varð mér að ósk minni þegar Karl ákvað að vera „frakkur“ og spreyta sig á þessu erfiða viðfangsefni. Tók stjórnandi þáttarins undir það með Karli og fannst hann full bjartsýnn að reyna við þennan afar sérhæfða flokk. Spurt var um hvaða tvær óperur eftir Maxcagni og Leoncavallo væru oftast fluttar saman (ekki svo létt spurning). Svarið vissi Karl ekki og ekki heldur Katrin. Logi Bergmann las upp svarið „Cavalleria Rusticana og I Pagliacci“ og vandaði sig mikið við að segja nöfnin rétt. Hlæjandi hrósaði hann sjálfum sér fyrir að hafa náð að bera þessi ósköp rétt fram (sem honum tókst reyndar ekki) og mátti skilja á fasi hans og þátttakendanna að þekkingarleysi í þessum málaflokki væri ekkert til að skammast sín fyrir. Hefði spurningin verið úr Njálu, Terminator-myndunum eða myndbandasafni Britney Spears væri vankunnátta hins vegar sennilega pínleg.

Þarna fannst mér fordómar vera á ferðinni og þar sem þeir ráða ríkjum á viðfangsefnið (í þetta sinn óperan) sér ekki viðreisnar von.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem mér finnst þessari listgrein misboðið í sjónvarpinu. Mér er minnisstætt þegar rússnesk sópransöngkona flutti lag úr ljóðaflokki sem heitir „Barnaherbergið“ í Kastljósinu. „Að sjálfsögðu“ var ljóðið ekki textað; hefur sennilega verið of dýrt og kynnirinn kynnti verkið sem „rússneskt lag“ sem nú yrði flutt! Söngkonan hefði alveg eins getað farið með rússneska súpuuppskrift eða sungið upp úr reglugerðum sovéska kommúnistaflokksins. Það hefði engu breytt því tónlist sem þessa skilur enginn og enn færri hafa af henni ánægju.

Óperan er því sennilega í útrýmingarhættu þó binda megi vonir við að dömubindaframleiðendur haldi áfram að nota stef úr Carmen (ópera eftir Bizet) í sjónvarpsauglýsingum sínum.

Breytir þar engu þó fólk sé ennþá að hafa orð á því við mig hvað „Brottnámið úr kvennabúrinu“ í Íslensku óperunni s.l. haust hafi verið skemmtileg og eftirminnileg sýning.

Skyldu Logi Bergmann, Karl og Kristín einhvern tímann hafa komið í óperuna?